Froskmaður Guðbergs
Hermann Másson (Guðbergur Bergsson) FROSKMAÐURINN Forlagið 1985.
Þetta er samtímasaga, sem gerist í litlu sjávarþorpi ekki langt frá Reykjavík. Sagan snýst að mestu um miðaldra karlmann sem rekur bifvélaverkstæði einn með lærling, og er froskmaður í frístundum. Í því hlutverki er hann söguhetja, og hefst sagan á því að hafmeyja birtist honum einu sinni þegar hann er á sundferð, og gerir honum tvo kosti: að fylgja sér, ella muni hún flækja neta- dræsum í skrúfur allra skipa. Froskmaðurinn tekur skylduna við konu og tvö börn framyfir þjóðarhag, og þá lamast flotinn, fyrst aðalaflaskipið, síðan stóru bátarnir, loks smábátarnir. En allar flækjur hverfa af sjálfu sér um leið og hann kemur nærri. Þegar hann er loks látinn fylgja flotanum á miðin verða engar flækjur, en fiskurinn raðar sér í netin, svo nýtt aflamet verður, jafnt hjá öllum. Vandinn er leystur, og froskmaðurinn fær orðu á sjómannadaginn, en sagan er ekki þar með búin, hann fer til Reykjavíkur og bregður sér til vændiskonu ásamt ungum sjómanni sem hann rekst á annað veifið. Það er hápunktur sögunnar.
Bygging sögunnar er að því leyti kunnugleg, að hún hefst á sviðsetningu þar sem aðalpersónan sést við sína dæmigerðu iðju. Um það er talað almennt, en svo birtist hafmærin og þar með hreyfiafl atburðarásarinnar. Síðan er aðalpersónan kynnt nánar, þ. e. fjallað er um eðli froskmanna frá ýmsum hliðum en þá kemur forsagan, svo sem algengt er, en hér lýtur hún nær eingöngu að tilhugalífi froskmanns og konu hans, frá því að hann hálftældi hana 10 ára stelpu. Samband peirra er þá í sögumiðju, beint og óbeint. Sagan fylgir tímans rás eftir því sem "skrúfuvandamálið" ágerist, en þó er aðeins örsjaldan farið fljótt yfir sögu. Það er einkum þegar rætt er um vanda flotans og björgunaraðgerðir froskmanns. Textinn er annars mestallur runa sviðsettra atriðra, hvert um sig tekur smástund. Þau eru jafnan stutt (2—3 bls.), og yfirleitt gerist ekkert í þeim, það er bara talað. Þessi kyrrstöðugangur minnir á draum, einnig hitt, að slitnar líkingar eru teknar bókstaflega, svo sem það að aðalandstæður sögunnar eru milli yfirborðsins og djúpsins — á mannlífinu, og því er froskmaður söguhetja! Einnig er hitt, að oft slær fyrirvaralaust úr einu atriði í annað, t. d. er froskmaðurinn ýmist að tala við föður sinn eða hann er einn andvaka, úti á sjó eða með konu sinni, þetta ruglast saman (bls. 107—8 og 127-8). Undir lokin er formaður froskmannafélagsins að tala við söguhetju og lætur í ljós öfund vegna orðuveitingar til hans, en fer svo fyrirvaralaust að kynna honum viðamikið vændi, dulbúið í smáauglýsingum Dagblaðsins (bls. 141—2). Þannig hefst atburðarásin sem ríkir í lok sögunnar. Þessi draumkenndi blær gerir að verkum, að það sem raunverulega skiptir máli í sögunni er veruleiki hugans, en ekki ytri viðburðir, svo reyfarakenndir sem þeir eru
Í sögunni er áberandi tvískipting, m. a. eftir sögustað. Annarsvegar er hafið, þar sem froskmaðurinn syndir einn, því fylgir frelsistilfinning og fegurð. Hafmeyjan vitrast honum einkum Þar, yfirleitt óljóst, sem skuggi eða óvæntur skellur. Og þar birtist ungur sjómaður froskmanninum, einungis þegar hann er einn á ferð. Hér koma fyrir náttúrulýsingar, fagrar og annarlegar, einnig sterkar tilfinningar. En í þorpinu er allt sviplaust, menn og staðir, einu tilfinningarnar sem þar birtast eru gremja og öfund. Enda eru þar allir á stöðugri hreyfingu, sem leiðir ekki til neins, og þar ríkja þreytandi endurtekningar. Fólk þvælist fram og aftur einhverja erindisleysu, og þvælir tóma vitleysu. Einkum á þetta við um föður froskmanns. Hann er kynntur sem sjálfhælinn, skömmóttur sídrykkjumaður, sem þykist allt vita betur en allir, og leggur sig fram um að skapa úlfúð milli annarra. Hann er jafnan með hugann við sjálfan sig, það birtist í sjálfsaumkun og græðgi, einkum er hann sífellt að þamba kaffi, og þvarga um flotann og þjóðarhag, og gefur í skyn að sonur hans beri sök á skrúfuvandanum. Hann kærir hann loks fyrir löggunni, en er þó einkum með dylgjur um alþjóðapólitískar rætur vandans, en þær virðast engan botn hafa. Stórveldin eru vænd um að flækja netum í skrúfur bátanna, en þetta er ekki hugsað til enda, hvernig eða til hvers. Þetta er ómerkilegur kjaftaskur sem flestir taka mark á, nema kona froskmanns. Enda hafa þorpsbúar yfirleitt sama sjóndeildarhring og þessi karl. Þetta er alþjóðlegt fyrirbæri, fáránlegar samsæriskenningar um ”hulið vald”. Þar er komið að öðru hafi í sögunni, þar marar allt á kafi í heimskulegum kjaftagangi. Fundur í félagsheimilinu er dæmigerður fyrir þetta. Þar kemur í ljós að flestir eru að hugsa um eitthvað annað en fundarefnið, "vanda sjávarútvegsins”. Það er gaman að því, að í rauninni virðist öllum standa á sama um hann í þessu sjávarplássi. Þess í stað er fólk einkum með hugann við útlit sitt og "ímynd”. Þarna tala fulltrúar kvennalistans og frjálshyggjumanna, hvor með sína fáránlega einhliða skýringu og úrlausn á vandanum (bls. 87—8):
Maðurinn frá Félagi frjálshyggjumanna hélt fyrstu ræðuna og hélt því fram að ef báknið færi burt, færi hvorki net né annað í skrúfu bátanna. [...] [En fulltrúi kvennalistans] sagði að þær í samtökunum hefðu fengið myndband hjá sjónvarpinu og skoðað "skrúfuvandamálið” svonefnda og mannfræðingur þeirra sá glögglega að brugðið hefði verið út af hefðbundnum veiðiaðferðum sem væru fullgildar.
Og það er þess vegna sem netin leita í skrúfuna, sagði hún með áherslu. Hér er um mannfræðilegt menningarsjokk að ræða.
Af þessu sést hvernig sagan skopstælir pjóðmálaumræður samtímans á Íslandi. Það er einn fyrirferðarmesti þáttur bókarinnar, og þar ríkir semsagt stefnuleysið, í ferðum fólks og umræðum. "Íslenska munnræpurykið hefur lagst á allt" (bls. 108), og allt verður grátt. Það er þetta hráefni, sem skáld taka úr umhverfi sínu, venjulegur kjaftagangur, sem mest fer í taugarnar á mörgum lesendum Guðbergs. Stíllinn á þessu er alþýðleg útgáfa stofnanamáls, svo sem gengur í fjölmiðlum. "Verið var að gera froskmanninum of hátt undir höfði á kostnað aldraða sjómanna. Það var ekkert réttlæti í því”.
Sé faðir froskmannsins fulltrúi innantóms kjaftæðis um þjóðmálin, þá er kona froskmanns annar póll. Annar meginþráður sögunnar fjallar um þau hjónin. Þau tala eingöngu saman um samband sitt, eða sambandsleysi, einkum þó um eðli hans og karlmanna almennt, hún leitar skýringa á því að hann skuli sífellt synda burt frá henni. Hún þolir ekki föður hans né móður, vegna afskiptasemi þeirra. Hún ræðir ekkert um þjóðmálin, og er í rauninni frekar dauf persóna, segja má pá að hún snúi öll að froskmanninum, sé til að varpa ljósi á hann. En útkoman verður óræð; eðli mannsins. Aðalpersónan er í rauninni síst sérkennilegri, enda er það algengast í skáldsögum að hún sé sviplítil, væntanlega til að lesendur geti almennt lifað sig inn í hana.
Börnum þeirra hjóna bregður rétt fyrir í svip, og sést þá helst sambandsleysi þeirra við foreldrana. En í lokin kemur froskmaðurinn að syni sínum æstum við að reyna að veiða hafmeyna með öðrum strákum. Má ætla að það sýni að honum kippi í kynið, eða öllu heldur, að sýnt sé ævarandi eðli karlmanna.
Sagan lætur lesendur finna fyrir því óþoli sem froskmaðurinn finnur sjáltur til undir gráma hversdagslegs kjaftæðis, stefnulaus þvælingurinn hvílir á þeim, og þarmeð skynja lesendur létti froskmanns við að synda burt frá öllu saman. Þegar froskmaðurinn er einn á ferð, sloppinn frá slævandi rausinu og frá tilætlunarsemi konu sinnar, breytir um blæ. Þá ríkir í sögunni kyrrð, sem blómstrar í fögrum myndum, svo sem þessi neðansjávarlýsing (bls. 49-50):
Sólin skein á hann, föl sól með dimmum geislum. Úti var logn, kyrrðin alger, furðuflugur á sveimi, flugur með sporð og hann langaði að leggjast til hvíldar í myrkrið og sofna í hinni svörtu vermandi sól, undir grænu áþreifanlegu skýi. En brjóst hans fylltist af ótrúlegum fögnuði, líkt og hann andaði lífsandanum djúpt að sér, því hann vissi að eftir þetta gat hann synt óhindrað úr veruleikanum inn í drauminn.
Hér eru öll helstu atriði sveitasælulýsinga; sólskin, kyrrð, hvíld, og fögnuður manns yfir samruna við náttúruna. En jafnframt er allt umbreytt, flutt á annað svið, með breyttum litum og öðrum ytri einkennum.
Hér hefur verið rætt um mismunandi þætti sögunnar, þeir tengjast sem andstæður í lífsháttum. Annarsvegar er það fólk sem lagar sig að umhverfinu, grátt og sviplaust, talar óeðlilega hátíðlegt mál, og tyggur einhverja vitleysu um alþjóðamál upp úr sjónvarpinu. Þessi skopstæling nær lengst í lokahluta bókarinnar, eftir að komið er til Reykjavíkur. Sá hluti er mun skoplegri hinum, meira tekið upp af dæmigerðu alþýðumáli. Þar hittir froskmaðurinn formann froskmannafélagsins, sem er á flesta lund hliðstæða hans, eða skopstæling. Hann á sér leynihelli neðansjávar eins og froskmaðurinn, en í stað hatmeyjarinnar kemur þar langa sem myndar tákn óendanleikans á sundi sínu. Heima hjá formanni, þar sem "stofan var stórt völundarhús þar sem ekki varð þverfótað fyrir húsgögnum [...] dáðist froskmaðurinn að þeirri miklu fjárfestingu sem var auðsæilega í húsbúnaðinum og hann skynjaði festuna og lífshamingjuna í hangandi veggskrauti og hugsaði með sér að helmingurinn af því nægði handa þremur fjölskyldum úti á landi. Meðal annars hékk stóll á veggnum og honum datt í hug að óvitlaust væri að kaupa veggstól." — Það væri líklega hámark gagnslausra fjárfestinga. Vel kemur fram þessi mótsögn milli viðtekins ytra forms og innihalds í því að "þau héldu áfram að spyrja og svara fjörlega en innihaldið er ekkert: hvað er að frétta, "heldur lítið, en hjá ykkur, alltaf það sama (bls. 137)"
Hinsvegar er sá kostur að róa einn á báti, sigla sinn sjó, flýja félagslegar skuldbindingar svo sem innihaldslaust fjölskyldulíf. Frá því liggur leiðin til lífsfyllingar og fegurðar.
Við þær aðstæður hugsar froskmaðurinn mikið um eðli sitt, spyr hvers hann sé að leita með sundinu. Um það segir meðal annars (bls. 7):
Að kafa var froskmanninum fyrir mestu, að vera á valdi náttúruaflanna en stjórna sér samt sjálfur. Á sundinu sameinuðust höf jarðar, himinn og geimurinn og eitthvað í honum sjálfum. Þetta var dálítið torskilið en honum þótti nóg að njóta tiffinningarinnar að vera allur flug í vötnum sjávar.
Við þessar aðstæður hittir hann hafmeyjuna. Fyrst er hún ekkert nema frekjan, en síðar kemur æ betur fram, að hún er hugarburður froskmannsins. Hann spurði: "Hvar felurðu þig á daginn þegar ég kafa?
Í þér, svaraði hún. Þú ert eina athvarf mitt.(bls. 76).
Víða kemur fram að hafmærin er svona óljós persóna vegna þess að hún er einungis persónugervingur óljósrar þrár froskmannsins, sem dregur hann einan út á sund. Það er þá merkilegt, að þegar hann nálgast hafmeyna, lendir hann bókstaflega í neti ungs sjómanns, "sem reri einn á báti. Ungi sjómaðurinn er eina persónan sem sést í sögunni. Hann virðist beinlinis renna saman við hafmeyna, sem var kynnt sem draumur froskmannsins. Samruni þeirra verður í fögrum náttúrulýsingum (bls. 103—8), þar kemur litur og ljómi á lífið. Vændislýsingin í lok sögunnar er mjög skopleg, en þar breytist tónninn skyndilega. Vændiskonan sjálf er skopfígúra eins og þorpsbúar, með útjaskaðan hátíðlegan talsmáta, en andstæða hennar er sjómaðurinn ungi. Og raunar er vændiskonan einungis leið til kynferðislegs sambands þessara tveggja karlmanna sín á milli, eins og kemur fram í eftirfarandi lýsingu (bls. 152-3). Það er ungi sjómaðurinn sem fyllir froskmanninn af taumlausri ástríðu, og andlag þeirrar ástríðu er harður bolur, augljóst karlmennskutákn:
Ungi maðurinn kom ekki aftur og það leið góð stund. Hann læddist þá fram á ganginn og fór að gá. Hljóðlátt snökt og formælingar bárust innan úr herbergi og hann gekk á hljóðið. Í sömu svifum kom konan hálfnakin fram með lófann fyrir náranum og ætlaði inn á baðherbergið. Froskmaðurinn brá sér í veg fyrir hana,
Augnablik, bað hún. Ég ætla að skola mig áður.
Hugsunin um að hún hefði ekki skolað sig enn og að ungi maðurinn hefði verið inni í henni ærði froskmanninn með taumlausri ástríðu. Hann greip um handlegg hennar. Hún æpti lágt en hann leiddi hana inn og sá í rökkvuðu herberginu að ungi maðurinn stóð úti í horni og var að paufast við að fara grátandi í síðar nærbuxur. Hin óljósa sýn æsti froskmanninn enn meir: rautt barnslegt og tárvott andlitið og nærbuxurnar sem hólkuðust niður um hann og linur limurinn kom út um klaufina. Þá ýtti froskmaðurinn konunni niður á rúmstokkinn og lét hana taka á móti sér í skyndi.
Það er naumast, urraði hún.
Við urrið fann froskmaðurinn hvernig hann blés upp og varð að gríðarlegum gaur. Hann opnaði munninn og emjaði svo ungi maðurinn leit við og góndi - Þá var eins og augnaráð hans ræki froskmanninn inn í harðan trjábol með heljarafli svo hann lamdist gegnum börkinn og sökk í alla árhringina sem sugu hann til sín og hertu að.
Trjábolurinn var fullur af mjúkum safa sem ólgaði eins og ljúft haf og árhringir hans frá fyrstu tíð herptu að lífi hans svo hann náði varla andanum á hinu hraða sundi.
Þetta atriði virðist mér vera hápunktur sögunnar, sem áður segir, sund í
æðra veldi og hún er þá ekki síst bersöglismál eða ástarsaga homma. Hún er það miklu fremur en Hinsegin sögur, sem Guðbergur sendi frá sér ári áður, þar var einkum dvalist við umtal um homma, ekki við tilfinningar leirra. Er það ekki þetta sem gefur tilvitnaðri náttúrulýsingu (bls. 49—50) lit og glóð, fegurðin sé öðruvísi, hinsegin, ef svo mætti segja. Þannig skildi ég altént fyrstu lýsingu bókarinnar af því tagi, um þönglana (bls. 3):
Þar sat hann stundum á steini innan um þangið og naut þess að sjá hvernig langir, brúnir og iðandi þönglar luktust um hann. Við það ímyndaði hann sér að þangið væri hár en einkum hendur sem gældu við líkama hans. Að sjálfsögðu fann hann enga snertingu vegna þess að hann var í búningi. Þrátt fyrir hættuna brá hann sér samt stundum æstur úr búningnum og leyfði þangi og þönglum að strjúka sig. Þangið virtist æsast einhvern veginn við nekt hans, þá lokaði hann augunum og naut þeirrar tilfinningar að vera í tengslum við alheiminn, hafið og gróður djúpanna.
Gildi þessarar lýsingar eins og fleiri, lægi þá ekki síst í því, að vera liður í kerfi, sem liggur undir yfirborði bókarinnar, og gefur henni aukna merkingingu. En rétt er að nefna að ég hefi borið þessa lýsingu — þar sem ég skil þönglana sem reðurtákn — undir þau sem hún gæti þá helst höfðað til, konur og homma, og fannst þeim hún ekkert sérstakt. Hún er það þá kannski ekki ein sér, heldur sem hluti af heild.
Þrátt fyrir að nokkur feluleikur sé í þessari bók, þá er hún tvímælalaust vitn- isburður um þá frjálsræðisþróun sem orðið hefur undanfarin ár, ég efast um að hún hefði getið orðið til fyrir tíu-tuttugu árum. Skiptir þá efni sögunnar máli, kann einhver að spyrja, er ekki sama að hverjum ást eða losti beinist, þarf að sýna það beint fremur en óbeint? Svarið er, að efni skáldverks skiptir máli að því leyti, að það höfði til skáldsins. Því er slæmt að bannhelgi hvíli á því sem höfðar sterklega til sumra, því það gerir hókmenntirnar snauðari, lífið
grárra. M.a. þessvegna ber að fagna réttindabaráttu samkynhneigðra, en einnig vegna þess að hún hlaut jafnframt að vera barátta fyrir rétti allra til lífs á eigin forsendum
Mér finnst Froskmaðurinn ein af bestu bókum Guðbergs, og þá vegna þessara andstæðna sem í henni birtast og gera hana ríkulegri en ýmsar aðrar. Hún er gefin út undir nafni einnar sögupersónu Guðbergs úr Hermann og Dídí og fleiri bókum; Hermann Másson, og kann ég ekki að skýra það, en hefi fyrir satt, að það hafi ekki verið hugsað sem dulnefni, enda er æskumynd af Guðbergi aftan á bókinni.
Skírni 1986
Engin ummæli:
Skrifa ummæli