fimmtudagur, 15. febrúar 2007

Hæ og vei


Hæ og vei
I. Allt frá því ég fyrst man eftir mér hefur verið býsnast yfir bandarískum áhrifum á íslenskt þjóðlíf. Þó miklu meir á unglingsárum mínum fyrir fjórum áratugum en nú er. Satt að segja þótti þá flest benda til þess að íslensk menning væri í andarslitrunum og ,,amerísk skrílmenning” kæmi í stað hennar á Fróni. Þetta sýndi sig ótvírætt í því að unglingar notuðu upphrópanirnar sem eru fyrirsögn þessa pistils, ,,jórtruðu tyggigúm í gríð og erg” (það var bannað í öllum skólum, held ég), sóttust eftir fötum með nýju erlendu (amerísku) sniði, hlustuðu á dægurlög frá Bandaríkjunum (að vísu oftast við íslenska texta Kristjáns frá Djúpalæk og félaga) og það sem verst var, hlustuðu á þennan ófögnuð úr ,,glymskröttum” (,,djúkboxum), jafnframt því sem þeir slöfruðu í sig mjólkurís frá Dairy Queen. Fimmtuigsafmælisbarnið Guðrún Ása Grímsdóttir er af þessari óþjóðlegustu kynslóð, þótt ég hinsvegar hafi ekki heimildir um hegðun hennar og málfar á unglingsárum. Það er skondið, að nú eru þessi erlendu einkenni, sem áttu alveg að vera að drekkja íslenskri menningu, orðin svo sjaldgæfir forngripir, að fólk gerir sér sérstaka ferð upp í Árbæjarsafn til að sjá þá. En auðvitað hefur þá sitthvað nýrra komið í staðinn, einnig oft frá Bandaríkjunum. Sérstaklega blöskrar mörgum þjóðræknum Islendingum, hve mikið unglingar nota upphrópanir ættaðar úr bandarískum kvikmyndum. I stað þess að segja ,,andskotans helvíti” eða ,,helvitis andskoti” segi þeir ,,sjit”, ,,fökk”, ,,vá”, ,,vei”, og heilsist með orðinu ,,hæ”, einsog reyndar Danir gera líka. Þeir kveðjast hinsvegar með því að tvítaka þá kveðju, ,,hej, hej”, þar sem Íslendingar kveðjast þó enn með því að segja bless. Einhverjir segja kannski ennþá ,,bæ”, en ,,bæbæ” og ,,bæjó” getur enginn sagt lengur nema afhjúpa sig sem hlægilegan lúða, sem sé aftur úr allri tísku. 
Það mætti nefnilega reyna að hughreysta þetta áhyggjufulla þjóðrækna fólk með því að benda á að ekkert verður eins úrelt, aflægislegt og hlægilegt og slík tíska, þegar hún er orðin (fárra ára) gömul. Sömuleiðis mætti draga í efa að þetta háttalag unglinga nú, eða fyrir fjörutíu árum, sé neitt órnerkilegra en þeirra sem þótti ekkert fínt nema það væri danskt, fyrir 60—70 árum eða fyrr. En mér finnst hitt merkara, að öll þessi áhrif eru sem hjóm miðað við hitt, hversu mikil frumleg sköpun er í íslenskri menningu á hverjum tíma. Og á sýnist mér augljóst, aö hún er miklu meiri, almennari og fjölskrúðugri nú, en hún var íyrir bara 20—30 árum. Virðist því ekki ástæða til að hafa áhyggjur af íslenskri menningu — nema þá af þeirri hættu sem henni stafar af fólki sem vill frysta hana í einhverju ástandi sem það þekkti frá æskuárum sínum.
II. 
En nú kemur óvænt heimild til skjalanna, nefnilega Málskrúðsfræði Ólafs Þórðarsonar, frá miðri 13. öld. Þar eru m.a. tekin dæmi af upphrópunum, og segir svo (í lok IX. kafla): 

Meðalorpning sýnir hugþokka rnanns, og er hún jafnan frá skilið öðrum pörtum, sem hér, vei, haì.

Hér er þá ótvíræður vitnisburöur um að þessar ,,amrískustu” af öllum upphrópunum unglinganna, ,,hæ og vei”, eru forn menningararfur Islendinga, raunar telur Olafur Þórðarson engar aðrar upphrópanir! Orð hans "meðalorpning" er bein þýðing á latínuorðinu "interjection", sem er notað alþjóðlega í þeirri merkingu. Mættu þá sumir þjóðræknir áhyggjumenn róast nokkuö. 
Nú er þess aö gæta að skv. fornmálsorðabók Fritzner kemur ,,hai” aðeins tvisvar fyrir auk framangreindrar tilvitnunar, þ.e. í biblíuþýðinunni Stjórn og í Parcevals sögu (12. k., bls. 250). Ekki hefur orðasafn Árnanefndar í Kaupmannahöfn fleiri dæmi. En Fritzner hefur einnig orðmyndir sern augljóslega eru skyldar; ,,há” og ,,hó”, Fritzner tilfærir dæmi úr Maríusögu, bæði kveinstafi: ,,há mig” og undrun, aðdáun: ,,há, há, herra minn!” Svipuð er notkunin á ,,hó” skv. Fritzner, en skemmtilegasta dæmi þess er í Elíssögu (56. k.): 

Hryggur var Julien, er hann kenndi sig af hesti fallinn og ... sá að hann stappaði niður fótum og vildi gjarnan drepa hann. En þá mælti Julien: ,,hó, hó, hinn góði Arabfa hestur!” kvað hann, ,,mjög heitast þú nú við mig og ógnar mér dauöa .. 
[og áfr., fortölur til hestsins].

,,Vei” er miklu algengara, en mest ber á þeirri upphrópun í þýddum sögum; Barlaamssögu, Karlamagnússögu, riddarasögum og trúarlegum ritum, auk konungasagna; vei er og oft notað sem nafnorð. Fritzner rekur dæmi ss.: ,,vei er nú heiðingjum að eg em lauss” (Elucidarius), áþekk eru dæmi hans úr konungasögum: ,,vei verði honum" segja tröll um Ólaf Tryggvason, en í Sverrissögu segir Sverrir reiður við son sinn: ,,vei verði þeim konungssyni, er svo iIla gætir sinnar sveitar, sem þú hefir gætt.” Ásgeir Blöndal telur í Orðsifjabók sinni dæmi úr náskyldum málum, sem benda eindregið til að þessi upphrópun sé forn í málinu, en a.m.k. notkunin virðist lituð af latínu ,,vae” (eins og í ,,vae victis”), enda oft þýðing á því; t.d (í orðasafni Árnanefndar). ,,vei verði þér borg, er púta mættir heita” — ,,vae tibi civitas meretrix” (Pál 187,6), og virðist líklegast að fyrirmynd þessa orðalags, einnig í dæmum konungasagnanna, sé erlend rit fremur en daglegt mál á Íslandi. 
Samkvæmt Fritzner eru furðufá dæmi um aðrar upphrópanir. Aðeins tvö um ,,æ”, í Jómsvíkingasögu og í 2. málfræðiritgerð Snorra-Eddu; (bls. 64): ,,æ, það er veinun”. Sama gildir um ,,á” skv. 1. bindi Orðabókar Arnanefndar, og er það algengt sársaukakvein víða um heim, svo sem alkunna er. Hið fyrra er einkennilegt, því þessi bókstafur æ merkti langt opið [e:j á fyrra hluta 13. aldar, þegar þessi málfræðiritgerð er tekin saman, það var ekki fyrr en löngu síöar, sem það breyttist í núverandi frb. í íslensku: [ai]. Víða um Iönd kveinar fólk [ai}, en hvar í veröldinni heyrist kveinað [e:]? Skyldi annaðhvort vera ranglega tímasett, 2. málfræðiritgerðin eöa tvíhljóðunin? 
Um ,,ó” eru dæmin miklu fleiri, en eingöngu í þýddum ritum, og flest eru au trúarleg; ,,ó! góðir menn! fagrar jarteinir megu þér nú heyra” og ,,ó! lávarður minn góði!”, ,,ó, hossun yður, er hlægið” (Hómilíubókin), ,,ó, son, ó, son! æsileg og óaflátleg er ótrú gyðinga” (Maríusaga). Einnig ,,ó” er algengt í latínu og frönsku, sem hér er þýtt úr, en vitaskuld getur það verið forngermanskt fyrir því, svo sem Ásgeir Blöndal telur líklegast, en nefnir þó að ýmsir hafi talið þetta vera tökuorð úr latínu. Mikil eftirsiá er í því að meðalorpningin ,,ó, hossun” skyldi ekki haldast í málinu, þaö væri munur að geta prýtt mál sitt með slíku. Hún er norrænnar ættar skv. Ásgeiri Blöndal, stýrir þgf. eins og vei, og merkir það sama. Eins og allir vita hefur ,,vá” verið tekið inn í nútímamál úr fornri íslensku, til að mynda sem liður í orðinu vátrygging. Það má mikið vera, ef fornmenn hafa ekki einhverntínia hrópaö ,,vá”, borið fram: [vaa], þegar þeim þótti voði steðja að. Er þá skammt yfir í nútímaupphrópunina, þótt framburður hafi breyst og merkingin sé tekin frá könum, að láta í ljós undrun eða aðdáun, Iíkt og ,,hæ” er nú heilsan, frekar en upphrópun. — Hér verður þess að geta, að mötunautar mínir, þeir Jóhannes Bjarni Sigtryggsson og Ármann Jakobsson bentu mér á klausu um upphrópanir í grein Guðrúnar Kvaran um málfræði Runólfs Jónssonar, en hún er fyrsta beygingafræði íslenskrar tungu, Recentissima antiquissimæ linguæ septentrionalis incunabula, id est graminaticæ Islandicæ rudimenta ... frá 1651. Guðrún rekur þar eftir Runólfi m.a. (bls.138): 

Ef láta á í ljós aðdáun er hrópað upp: hva! aa! eða hvaðalaatum! Ef Ieggja á áherslu á samþykki er aftur á móti notað jaavel! Sem einhvers konar ógnun er notuð upphrópunin biby, en svei, fuy eða vei ef manni ofbýður. Ef látin er í ljós gleði heyrist hohoo en þegar hlegið er hahaa, hihy. Auvi, æ og æejej eru upphrópanir sern tengjast sársauka en um þögn er beðið með þei, þei. 

Sumt er hér tortryggilegt sem heimild um mál almennings á Íslandi á 17. öld, líklegra að þetta sýni málfar höfundar og vina hans í Kaupmannahöfn, þar sem ritið var samið. Þar á ég einkum við ,,jável”, og ”fuy”, sem ég veit ekki til að þekkist ella í íslensku, en er alkunna í dönsku. Einkum á ég þó erfitt með að trúa því að einhverjum hafi þótt sér ógnað með upphrópuninni ,,bíbí”, og erfitt að sjá hverju hún gæti tengst í íslenskum málvenjum, öðru en því að vera barnamál fyrir litla, aðlaðandi fugla. Skyldi ekki einhver hafa logið þessu að Runólfi, með formálanum: ,,Þetta var nú málvenja í minni sveit? Ekkert verður þó um það fullyrt eftir hálfa fjórðu öld, og skiljanlega hefur öll þessi mállýsing Runólfs verið erfitt frumkvöðulsverk. 
Fleira mætti telja, en greinilega koma framantaldar upphrópanir aðallega fyrir í þýddum ritum, auk málfræðiritgerðanna, sem kunna að vitna um notkun utan þýddra rita, daglegt mál. Nú þyrfti auðvitað að bera alla þessa textastaði saman við frumtexta, og álykta af því hvort þessum upphrópunum sé bara skilað beint frá frumtexta, en til þess gafst enginn tími, með tveggja vikna fyrirvara nú í kennslubyrjun. Verð ég að víkja því verkefni til mér lærðari manna á þessu sviði, auðvitað þarf nákvæma rannsókn á þessu ölIu. 
Nú kynni einhver að efa að þessi orð hafi skipt máli sem upphrópanir, fyrst þau komi ekki fyrir í Islendingasögum og Sturlungu, sem eru fullar af samtölum, líkt og skáldsögur nútímans. En smáumhugsun sýnir að þar er ólíku saman að jafna. Nútímaskáldsögur eru oft fullar af samtölum, sem sannarlega líkjast daglegu tali, og orka einkum til að varpa hversdagslegum blæ á persónur og umhverfi, eða skapa því staðbundinn svip. En samtöl í Islendingasögum eru þvert á móti líkt og í Eddukvæðum, ris texta, þar er sett á svið, þar sem átök brjótast út á einhvern hátt. Því eru tilsvör stutt og hnitmiðuð, það væri fráleitt að ímynda sér að þau samtöl séu einhver heimild um daglegt tal á miðöldum. 
Meginniðurstaðan verður sú, að svo sáralitlar heimildir sem til eru um upphrópanir í fornri íslensku, þá virðist íslenskar upphrópanir nútímans fremur vera undir latneskum áhrifum en bandarískum, og t.d. ,,hæ” og ,,vei” síst óþjóðlegri en ,,æ” og ,,ó”. 

Stafsetning er hér samræmd að nútímahætti. 

Heimildaskrá: 

Ásgeir Blöndal Magnússon: Íslensk orðsifjabók. Rvík 1989. 

Johan Fritzner: Ordbog over det gamle norske sprog. I—III, Kristiania 1886—1896. 

Guðrún Kvaran: Grammaticæ islandicæ rudimenta. Islensk málfræöibók frá 17. öld. Islenskt mál og almenn málfæði 15. bindi, 1993, bls. 123—139.

Ordbog over det norrøne prosasprog. Registre. Kbh. 1989. I. bind: a—bam. Kbh. 1995. 
- (Hér má finna tilvísanir í oråasafn Arnanefndar, en aðrar í Fritzner). 

Ólafr Þórðarson: Málhljóða- og málskrúðsrit. Grammatisk-retorisk athandling udgiven af Finnur Jónsson. København 1927. 

The so-called Second grammatical Treatise. Edition, Translation and Commentary by Fabrizio D. Raschellá. Firenze 1982.

Engin ummæli: