fimmtudagur, 15. febrúar 2007

Kiljan Longfellow

Eilíbbð

Kiljan Longfellow

Í skáldsögu Halldórs Laxness Brekkukotsannáll er standklukka nokkur mikilvægt atriði, einkum í upphafi. Alkunna er að lýsing hennar á við klukku á bernskuheimili Halldórs, og enn stendur hún í húsi hans á Gljúfrasteini. Raunar lýsti hann henni í fyrstu grein sem hann birti á prenti undir eigin nafni, Gömul klukka, í Morgunblaðinu 7. Nóvember 1916, þá rúmlega 14 ára gamall. En það varð til þess að um skeið æptu jafnaldrar hans á hann “Gamla klukka!” á götum Reykjavíkur, segir Hannes H. Gissurarson (Halldór, bls. 69).
Inni í greininni kemur tilefni lýsingar hennar:

Það slær í augum manns einkennilegum helgiblæ á ýmsa forna hluti – hluti, sem hafa verið lengi við líði og eiga sér sögu. Komi maður inn á forngripasafn, fellur hugur hans í stafi við að standa augliti til auglitis við helgidóma fortíðarinnar.

Annars rekur Halldór einkum feril klukkunnar milli eiganda, frá því að hún var flutt til landsins, ein hin fyrsta slík, á öndverðum síðasta fjórðungi 18. aldar. Fyrstan eiganda nefnir hann Ísleif Einarsson á Brekku, langalangömmubróður sinn, ennfremur að klukkan hafi bjargast úr eldsvoða, og verið illa farin er Páll Melsteð seldi hana;

ekki álitleg; sýnist í fljótu bragði einskis virði. Kassinn brotinn og myglaður, skífan spanskgræn, verkið þó furðanlegt, glerið yfir skífunni að líkindum brotið. Þó kaupir hana Skafti læknir Skaftason á 8 dali (eða 16 krónur).
Hann var maður prýðilega laghentur við smíðar – jafnt sem orðlagður læknir. Dubbar hann þá gömlu upp, kemur henni í gang og dyttar að henni þar sem bilað er. [...]
Klukkan er strengjaklukka; er á hæð 1.8 m. Rauðmálaður trékassi yzt. Smíðuð hjá James Cowan í Edinburgh. Ártalið, nær hún var smíðuð, finst eigi letrað á hana. Skífan í ferhyrndri umgerð úr látúni; rósir og myndir stungnar í hornin. Ganglóðin tvö, hvort alt að 6 kg. að þyngd. Prýðilegur frágangur á verki – getur enst aðra eins æfi enn. Sýnir mánaðardaga og sekúndur, hefir sýnt tunglkomu; það verk nú bilað.
H.Guðjónsson
frá Laxnesi.


Þessi lýsing gengur að verulegu leyti aftur í lýsingu klukkunnar í Brekkukotsannál:

Og nú hef ég upp þessa bók þar sem klukkan okkar gamla stendur heima í stofunni í Brekkukoti og er að tifa. Í þessari klukku var silfurbjalla. Sláttur hennar var með skæru hljóði og heyrðist ekki aðeins um allan bæinn hjá okkur, heldur einnig uppí kirkjugarð. En í kirkjugarðinum var önnur klukka, hún var úr kopar; og af þeirri klukku barst djúpur ómur á móti, alla leið til okkar inní bæ. Þannig mátti í ýmsum veðrum heyra samhljóm af tveim klukkum í þessu moldarhúsi, annari úr silfri, hinni úr kopar.
Á klukkunni okkar er útflúruð skífa, og í miðju útflúrinu verða lesin þau orð, að þessa klukku hafi smíðað herra James Cowan sem lifði í Edínaborg árið 1750. Klukkan var eflaust smíðuð til að standa í öðru húsi en Brekkukotsbænum, því það hafði orðið að taka neðanaf henni stöðulinn svo hún kæmist fyrir undir loftinu okkar. Þessi klukka tifaði hægt og virðulega, og mér bauð snemma í grun að ekki væri mark takandi á öðrum klukkum. Úr manna virtust mér eins og ómálga börn í samanburði við þessa klukku. Sekúndurnar í annarra manna klukkum voru einsog óðfara pöddur í kapphlaupi við sjálfar sig, en sekúndurnar í sigurverkinu hjá afa mínum og ömmu, þær voru einsog kýr, og fóru ævinlega eins hægt og unt er að gánga án þess að standa þó kyr.
Það var segin saga ef eitthvað var um að vera í stofunni, þá heyrðist aldrei í klukkunni frekar en hún væri ekki til: en þegar kyrt var orðið og gestirnir farnir og búið að taka af borðinu og láta aftur hurðina, þá byrjaði hún aftur, og lét sér ekki fipast; og ef nógu grant var hlustað kom stundum saungtónn í ganghljóðið; eða einsog slæi fyrir bergmáli.
Hvurnin stóð á því að ég skyldi fá þá flugu að í þessari klukku byggi merkilegt kvikindi, og það væri eilífðin? Það rann sumsé upp fyrir mér einn dag að orðið sem hún sagði þegar hún tifaði, tveggja atkvæða orð sem var dregið á seinna atkvæðinu, það væri ei-líbbð, ei-líbbð. Kannaðist ég þá við það orð?
Það var skrítið að ég skyldi uppgötva eilífðina sisona, laungu áður en ég vissi hvað eilífð var, og jafnvel áður en ég hafði lært þá setningu að allir menn séu dauðlegir, já meðan ég lifði í rauninni í eilífðinni sjálfur. Það var eins og fiskur færi altíeinu að uppgötva vatnið sem hann syndir í. Ég veik að þessu við hann afa minn einhverntíma þegar svo bar til að við vorum einir í stofunni.
Skilur þú klukkuna afi, segi ég.
Við hér kunnum ekki á þessa klukku nema að litlu leyti, sagði hann. Við vitum bara að hún sýnir dagatal og klukkustundir altoní sekúndur. En hann afabróðir hennar ömmu þinnar sem átti þessa klukku í sextíu og fimm ár, hann sagði mér eftir fyrra eiganda hennar að hún hefði sýnt túnglkomur áður en úrmakari komst í hana. Gamalt fólk í ætt ömmu þinnar hélt því fram að þessi klukka gæti sagt fyrir giftíngar og mannslát. En ég trúi því nú ekki nema mátulega, deingur minn.
Þá segi ég: Af hverju segir klukkan altaf ei-líbbð ei-líbbð ei-líbbð?
Það hlýtur að vera misheyrn, barnið gott, sagði afi minn.
Er þá ekki til eilífð? Spurði ég.
Ekki öðruvísi en þú hefur heyrt í kvöldbæninni hennar ömmu þinnar og í sunnudagspostillunni hjá mér, deingur minn, svaraði hann.
Heyrðu afi minn, sagði ég þá. Er eilífðin kvikindi?
Vendu þig ekki á rugl deingur minn, sagði afi.
Heyrðu afi minn, er nokkuð að marka aðrar klukkur en klukkuna okkar?
Nei, sagði afi minn; okkar klukka geingur rétt. Og það er af því ég er laungu hættur að láta úrmakara líta á hana. Enda hef ég aungvan þann úrmakara fyrir hitt sem hefur skilið þessa klukku. Ef ég get ekki gert við hana sjálfur læt ég klastrara líta á hana; mér reynast klastrarar best.”

Í skáldsögunni koma atriði, sem ekki voru í grein Halldórs hálfri öld áður, að taka varð neðan af klukkunni, svo þetta tiginmannlega húsgagn kæmist fyrir í kotbæ; en einkum þó allt talið um hljóð klukkunnar, og hvernig það er skynjað og túlkað.
Nú er augljóst að Halldór þurfti ekki að byggja þá lýsingu á gamalli grein sinni, hann bjó enn við þessa klukku, og heyrði væntanlega í henni daglega. Og síst skorti hann ímyndunarafl til að túlka það hljóð. En mér sýnist að þá túlkun byggi hann á bókmenntaverki annars manns.
Hér er greinilega um bókmenntalegt tákn að ræða, og eins og títt er um þau, er það hálfórætt, ekki ótvírætt hvað það á að tákna. Við tökum þó eftir að það er eins og tíminn líði hægar í þessari klukku – og þarmeð hjá Brekkukotsfólkinu en annars staðar. Því má ekki úrsmiður, fulltrúi samtímatækni, krukka í hana. Bæði það og silfurskær tónn klukkunnar tengist greinilega talinu um að finna “hinn eina sanna tón” síðar í sögunni. En lesendur munu kannast við að meginandstæður sögunnar birtast annarsvegar í Guðmundi kaupmanni og þó einkum Garðari Hólm; allt er falskt. En hinsvegar er andstæðan, látleysi Brekkukotsfólks og boðskapurinn til Álfgríms litla, að vera hann sjálfur, finna sinn rétta tón. Klukkan er greinilegur boðberi þessa, og vissulega hefði verið allt of flatneskjulegt að heyra til hennar eitthvað í áttina: “Vertu sannur, vertu sannur”. Segja má að þetta sé það eina sem gildi hafi um eilífð, því finnst Álfgrími hann vera í eilífðinni eins og fiskur í vatni. Samt finnst mér sérkennilegt, að það skuli birtast í þessu orði: ei-líbð ei-líbbð. Þar að auki man ég ekkert þessu líkt í íslenskum bókmenntum eldri. Og þegar ég rakst á sama atriði hjá bandaríska ljóðskáldinu Henry Wadsworth Longfellow (1802-1885), þótti mér þesslegast sem þetta væri hálfgildings “blint minni” í Brekkukotsannál, eðlilegra í fyrirmynd hans en honum sjálfum. Þetta er kvæði í ljóðabók Longfellows Klukkuturninn í Bruges (The Belfry of Bruges), sem birtist 1845, og var kvæðið ort sama ár, segir í formála þess (bls. 67)

The Old Clock on the Stairs

The house commemorated is the Gold house, now known as the Plunkett mansion, in Pittsfield, Massachusetts, the homestead of Mrs Longfellow’s maternal grandfather, whither Mr. Longfellow went after his marriage in the summer of 1843. The poem was not written, however, till November 1845, when, under date of the 12th of the month, he wrote in his diary: “Began a poem on a clock, with the words “Forever, never”, as the burden; suggested by the words of Bridaine, the old French missionary, who said of eternity, “C’est une pendule dont le balancier dit et redit sans cesse ces deux mots seulement dans le silence des tombeaux – Toujours, jamais! Jamais, toujours! Et pendant ces effrayables revolutions, un réprouvé s’écrie, “Quelle heure est-il?” et la voix d’un autre misérable lui répond, “L’éternité”

- Hér má þýða orð skáldsins: Hóf að yrkja um klukku með orðin “ævinlega, aldrei” sem burðarás. Það byggði ég á orðum gamla franska trúboðans, Briaine, sem sagði um eilífðina: “Það er standklukka, þar sem dingullin segir í sífellu aðeins þessi tvö orð í þögn grafanna –Alltaf, aldrei! Aldrei, alltaf! Og í þessari skelfilegu framrás hrópar glataður “Hvað er klukkan?” og rödd annars vesæls svarar, “Eilífð”.-

Somewhat back from the village street
Stands the old-fashoned country-seat.
Across its antique portico
Tall poplar trees their shadows throw;
And from its station in the hall
An ancient timepiece says to all, -
“Forever – never!
Never – forever!”

Half-way up the stairs it stands,
And points and beckons with its hands
From its case of massive oak,
Like a monk, who, under his cloak,
Crosses himself, and sighs, alas!
With sorrowful voice to all who pass, -
“Forever – never!
Never – forever!”

By day its choice is low and light;
But in the silent dead of night,
Distinct as a passing footstep’s fall,
It echoes along the vacant hall,
Along the ceiling, along the floor,
And seem to say, at each chamber-door, -
“Forever – never!
Never – forever!”

Through days of sorrow and of mirth,
Through days of death and days of birth,
Through every swift vicissitude
Of changeful time, unchanged it has stood,
And as if, like God, it all things saw,
It calmly repeats those words of awe, -
“Forever – never!
Never – forever!”

In that mansion used to be
Free-hearted Hospitality;
His great fires up the chimney roared;
The stranger feasted at his board;
But, like the skeleton at the feast,
That warning timepiece never ceased, -
“Forever – never!
Never – forever!”

There groups of merry children played,
There youths and maidens dreaming strayed;
O precious hours! O golden prime,
And affluence of love and time!
Even as a miser counts his gold,
Those hours the ancient timepiece told, -
“Forever – never!
Never – forever!”

From that chamber, clothed in white,
The bride came forth on her wedding night;
There, in that silent room below,
The dead lay in his shroud of snow;
And in the hush that folowed the prayer,
Was heard the old clock on the stair, -
“Forever – never!
Never – forever!”

All are scattered now and fled,
Some are married, some are dead;
And when I ask, with throbs of pain,
“Ah!when shall they all meet again?”
As in the days long since gone by,
The ancient timepiece makes reply, -
“Forever – never!
Never – forever!”

Never here, forever there,
Where all parting, pain, and care,
And death, and time shall disappear, -
Forever there, but never here!
The horologe of Eternity
Sayeth this incessantly, -
“Forever – never!
Never – forever!”

Ýmislegt hefur Longfellow ort magnaðra, en þetta þykir mér vel heppnað kvæði, hringrás mannlífsins birtist frá bernsku til dauða, og hverfleiki mannlífsins kemur vel fram í andstæðu við klukkuna, sem er fulltrúi eilífðarinnar. Hér á eilífðartalið vel heima.
Það er býsna margt líkt með þessu kvæði og lýsingu Brekkukots. Klukkan er nokkurra kynslóða gömul, í henni heyrist helst þegar þögn slær á, þarna er eilíft gestaboð, kynslóðir koma og fara. Satt að segja finnst mér Halldór gefa glettnislega í skyn að hann hafi tekið klukkuna að láni, þegar segir: “Klukkan var eflaust smíðuð til að standa í öðru húsi en Brekkukotsbænum, því það hafði orðið að taka neðanaf henni stöðulinn svo hún kæmist fyrir undir loftinu okkar.”
Þótt Longfellow vitni til fransks trúboða um viðkvæði sitt, þá þykir mér sá franski texti afar ómerkilegur, og ólíklegri til að innblása skáldi andagift, en þá nýbirt heimsfrægt kvæði eftir landa hans og sveitunga, Edgar A. Poe (1809 - 1849), Hrafninn, sem birtist skömmu áður, fyrst í blaði í janúar 1845, svo á bók í nóvember sama ár (Poe, bls. xiii), einmitt þegar Longfellow fór að yrkja ofangreint kvæði um klukkuna gömlu. Hrafninn hefur verið þráþýddur á íslensku (amk. af Einari Benediktssyni og Magnúsi Ásgeirssyni), svo ég rek ekki annað úr því en viðkvæðið: “Nevermore” (“Aldrei meir” þýðir Einar það), sem hrafninn svarar öllum spurningum gestgjafa síns. Sá á auðvitað erfitt með að skilja hann. Og skáld eiga skiljanlega oft erfitt með að játa lán á mikilvægum atriðum frá öðrum skáldum. Ekki þó Halldór, hann sagði (í viðtali við mig 1981): “Maður er alltaf að stela”. Og rakið hefur verið, að mörg helstu skáldverk hans voru mjög innblásin af annarra skálda verkum. Hann hafði bara óvenjumögnuð tök á að umsníða efniviðinn, og fella saman í nýjar, snilldarlegar byggingar.
Oft er talað um þá hættu sem menningu smáþjóða stafi af enskumálssvæðum. En ofanskráð er vonandi dæmi um hve frjó þau áhrif geta verið .

Heimildir:
Edgar Allan Poe: The Viking Portable Library, New York 1945.
Halldór Laxness: Brekkukotsannáll. Rvík 19
Sami: “Tímar Rauðra penna”. Viðtal við Örn Ólafsson. Mbl. feb. 1982.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson: Halldór. Rvík 2003 – þar (bls. 566) fann ég tilvísun í tilvitnaða grein Halldórs Laxness.
The Complete Poetical Works of Henry Wadsworth Longfellow. Cambridge edition (London, s.a., en formáli tímasettur 1895)

Engin ummæli: