Ólafs saga Þórhallasonar
Upplýsing í gegnum þjóðsögur.
Um Ólafs sögu Þórhallasonar eftir Eirík Laxdal.
Lesendur þessa munu flestir þekkja skáldsögurnar um Róbinson Krúsó (eftir Daniel Defoe, 1719) og Ferðir Gullivers (eftir Jonathan Swift, 1726. Þær eru nú einhverjar kunnustu barnabækur heims. En þær voru báðar ætlaðar fullorðnum lesendum þegar þær birtust, enda var hugtakið barnabókmenntir naumast til þá, og fáum blandaðist hugur um að Ferðir Gullivers væri grimmileg þjóðfélagsádeila, vart við barna hæfi. Báðar sögurnar segja frá venjulegum Vestur-Evrópumanni, sem verður skipreika á framandi slóðum. Þar steðja að margar hættur og vandkvæði, sem þeir félagar eru úrræðagóðir að leysa. Í því sambandi gefst Róbinson einkar vel kristilegt líferni, og leiðir það hann reyndar til þessa heims auðlegðar. Hann verður að spjara sig í einverunni lengstum, uns hann eignast þræl, en Gulliver finnur fyrir margbrotið, stéttskipt þjóðfélag, mjög með sama sniði og þá var í Englandi, aðeins er allt miklu minna að líkamsvexti.
Þessar sögur eru afsprengi ferðasagna og landalýsinga sem einkum urðu áberandi eftir landafundina miklu tveimur öldum fyrr. Og það tíðkaðist víðar á þeim tíma að skrifa þjóðfélagsádeilu í gervi ferðasagna. Fimm árum fyrr en Ferðir Gullivers birtust Persabréf Frakkans Montesquieu. En það skáldverk er safn sendibréfa sem Persinn Rica á að hafa skrifað til heimalands síns frá Frakklandi. Siðir og fyrirbæri sem Frakkar litu á sem sjálfsagða hluti, eru þannig sýndir sem framandi, siðlausir og fáránlegir, í lýsingu sögumannsins langtaðkomna.
Í þessum ævintýralegu og spennandi frásögnum sýnir sögumaður fyrst og fremst viðbrögð Vesturlandamanns við framandi umhverfi - út frá ríkjandi siðgæðishugmyndum, þetta eru hinsvegar ekki þroskasögur. Þessar tvær ensku skáldsögur voru stældar hvað eftir annað víðsvegar um Evrópu næstu áratugi. Ferðir Gullivers varð þannig fyrirmynd skáldsögu Lúðvíks Holberg, Nikulás Klím, en sú saga birtist (á latínu) fyrst 1741 og var skömmu síðar þýdd og útgefin á ýmis Evrópumál, á dönsku þegar á næsta ári. En þar segir frá norskum hringjara sem fer niður um gjárop í fjalli ofan við Björgvin. Eftir langt klifur fellur hann inður á jarðhnött sem svífur inni í okkar jörð. Og þar kynnist hann þjóðfélögum ýmissa furðuvera, fyrst trjáa, síðar einfætlinga með sellóstreng eftir sér endilöngum, tígrísdýra, o.fl. Eins og í Ferðum Gullivers furðar sögumaður sig á ýmiskonar hindurvitnum og ósiðum innfæddra, sem glöggt að gáð minna þó mikið á hjátrú og ýmiskonar ranglæti í Vestur-Evrópu samtímans.
Íslenskar fornsögur áttu sér framhald allt fram á 19. öld í riddarasögum. En fyrstu íslensku skáldsögurnar með nútímasniði eru frá seinni hluta 18. aldar. Og þær eru greinilega afsprengi fyrrnefndra tveggja enskra skáldsagna, hver með sínum hætti.
Eins og alkunna er, réði Hólabiskup einu prentsmiðju landsins allt frá upphafi prentaldar hérlendis, á miðri 16. öld fram til ársins 1773, að Hrappseyjarprent var stofnað. Og sú einokunaraðstaða var skefjalaust notuð, í tvær og hálfa öld var nær einvörðungu prentað ýmiskonar guðsorð á íslensku. Helsta undantekningin voru fáeinar fornsögur undir lok 17. aldar, þegar prentsmiðjan fluttist um hríð til Skálholts. En um miðja 18. öld voru miklar birgðir af hverskyns guðsorðabókum til í Hólaprenti, og seldust lítt. Til þess nú að nýta prentsmiðjuna og reyna að ná inn einhverjum tekjum ákvað ráðsmaður að prenta saman í bók tvær skáldsögur, þetta var nú sú bókmenntagrein sem þá fór sigurför um Evrópu. Og þessar fyrstu nútímaskáldsögur sem birtust á íslensku, saman í bók, hétu Gústaf Landcron og Berthold enski. Þetta eru stælingar á Róbinson Krúsó, enn kristilegri en sú saga, þýddar úr dönsku, prentaðar á Hólum 1756. M. a. eftir þeim var samin ein¬hvern tíma á næstu tveimur áratugum Parmes saga loðinbjarnar, sem er talin elst frumsaminna íslenskra skáldsagna, og var fyrst prentuð 1884. Um hana hefur Árni Kristjánsson fjallað rækilega í grein 1944. Þá gat hann raunar ekki lokið rannsóknum sínum á sögunni, því íslensk handritasöfn voru í öryggisgeymslu úti á landi á stríðsárunum. Því miður virðist enginn hafa lokið þeim rannsóknum á þeirri hálfu öld sem handritin hafa verið aðgengileg síðan.
I
Næstar á eftir Parmessögu komu tvær sögur eftir Eirík Laxdal. (1743-1816). Hann gekk á skóla á Hólum fáeinum árum eftir að fyrrnefndar skáldsögur birtust þar, en á Kaupmannahafnarháskóla 1770, hrökklaðist þaðan vegna ósamkomulags, og var í danska sjóhernum eitthvað á annað ár, en fluttist til Íslands 1775. Þar samdi hann síðan sögur sínar. Þær heita Ólandssaga (þ.e. Útópía) og Ólafssaga Þórhallasonar. Hvor um sig er runa smáævintýra, varla bundin saman af öðru en aðalpersónu. Atburðir byggjast mikið á þjóðsögum, Ólafssaga einkum á álfasögum, en einnig bregður fyrir draugasögum, álagasögum, útilegumannasögum og trölla. Þessi saga kom út á árinu 1987, en Ólandssaga er enn óútgefin. Hún er ámóta löng Ólafssögu og líkist henni í meginatriðum, en byggist á ævintýrum, sbr. lýsingu Einars Ólafs Sveinssonar á þessum tveimur sögum (í bókinni Um íslenskar þjóðsögur 1940, bls. 103-6), en þar er m.a. greining á helstu þjóðsögum og þjóðsagnaminnum þessara verka. Ekki eru beinar upplýsingar um hvenær Eiríkur samdi þessar sögur. En hann orti rímur af sögum sem voru í Ólandssögu árið 1777, og ætti þá sagan að vera eldri, en eiginhandrit Ólafssögu er skrifað á pappír með stimpluðu ártalinu 1788, eftir það ár er hún þá samin (Þorsteinn Antonsson, bls. 393. Hún þykir og betur sögð, en það væru viðbótarrök fyrir því að hún sé síðar samin. Sumir hafa þó talið að Eiríkur hafi unnið að báðum sögum samtímis, m.a. Steingrímur J. Þorsteinsson (í doktorsriti sínu um skáldsögur Jóns Thoroddsen, bls. 187). Ólandssögu er ólokið, hvort sem hefur týnst aftan af henni, eða þá að höfundur hafi ekki lokið við hana (sjá nánar Þorstein Antonsson, bls.417 o. áfr.). Steingrímur J. Þorsteinsson telur (bls. 183), að einnig Ólafssögu Þórhallasonar sé ólokið. Nú má að vísu spinna endalaust áfram slíka runu smáævintýra, en mér sýnist þó sögunni lokið á þann venjulega hátt að allar helstu persónur eru annaðhvort látnar eða giftar.
Eins og vant er með sögur þessa tíma fylgjum við aðalpersónu frá uppvexti um margskonar viðburði. Oft rekst hann á fólk sem hefur frá sínum ævintýrum að segja, og er þannig hverri sögunni skotið inn í aðra, svo sem alkunna er af t.d. Þúsund og einni nótt. En sérkennilegast við Ólafs sögu er að flest fólk sem aðalpersónan hittir, er álfar. Og það sem helst aðgreinir þá frá venjulegu fólki er auðlegð. Það er vitaskuld skv. hefð íslenskra þjóð¬sagna, en þar er þessi auðlegð fornleg, en hér eru álfarnir hinsvegar alveg eins og yfirstétt samtímans í t.d. Danmörku. Þeir aka í vögnum, hringja bjöllum á þjóna sína, borða kökur og ávexti, drekka vín. Og þegar Ólafur hittir þá, eru samtölin á samsvarandi fínum (kansellí)stíl, með málskrúði, þýskri orðaröð, tilfinningasömu tali, o.fl. þ. h. Raunar er áberandi hve vel allt þetta fína fólk tekur á móti ókunnum alþýðumanninum Ólafi. Einkanlega hneigist fólk mikið til að bera honum veglegar veitingar „í vistlegum litlum herbergjum“. Stundum lendir hann í vandræðum meðal slíkra valdamanna, þegar hann er saklaus borinn illum sökum. En jafnvel þá á hann sér ævinlega öfluga talsmenn, sem segja hann afbragð annarra manna. Enda sigrar hann í hverri raun, og jafnvel óvinir hans ganga þá til sátta við hann. Þeim er þá ekki refsað, heldur fyrirgefið, og hæla þeir síðan Ólafi á hvert reipi. Oft eru þessir dagdraumar af lostafengnu tagi. Aðalpersón¬an hittir hinar fegurstu konur og þær vilja ólmar sænga hjá honum hið fyrsta, einnig sú sem til tilbreytingar þykist hafa eitthvað annað í huga (bls. 183 o.áfr.). Þetta hefur sjálfsagt verið kitlandi á þeirri tíð, þótt fáum muni þykja lýsingarnar krassandi núorðið („Eftirlét Sólrún ekki að sýna honum alla blíðu. Og leið svo þessi nótt til morg¬uns“). Allt þetta meðlæti sem aðalpersónan verð¬ur fyrir, er auðvitað meðal einkenna léttra skemmtisagna.
Sú spurning kann að vakna hvers vegna lýsingar á lífi fyrirfólks í Danmörku séu heimfærðar upp á álfa. Má vera að þekking Eiríks á því hefðarfólki hafi verið helsti yfirborðsleg og aðfengin til að vera sannfærandi í bein¬um lýsingum. Álfarnir eru ýmist af þessu tagi eða þeir líkjast íslensku sveitafólki, og var það allt auðveldara.En líklegast þykir mér að þessi þjóðtrúaratriði séu tekin inn í söguna til að ná nánu sambandi við hugmyndaheim íslensks almennings.
Auk ýmisskonar þjóðsagna eru í sögunni góðar lýsingar á ýmsum alþýðustörfum, siglingum og fiskveiðum, m.a. og margar þjóðsagnanna eru sagðar í hefðbundnum íslenskum sagnastíl, þar sem ríkja stuttar aðalsetningar, ólíkt flóknum huglægum setningum kansellístílsins. Töluverð fjölbreytni er í sögunni, þegar á heildina er litið. En einnig koma kaflar (t.d. bls. 184 o.áfr.) þar sem saga eftir sögu um ást í meinum (manna og álfa), er fleyguð inn í hver aðra, svo erfitt er að átta sig á því hver er nú Rómeó og Júlía hverju sinni. Samkvæmt nútímamælikvarða er byggingu sögunnar verulega áfátt.
En þá verður þess að minnast, að fyrir tveimur öldum voru bókmenntir ekki fyrst og fremst lesnar í einrúmi, svo sem nú er, heldur yfirleitt lesnar upphátt yfir tóvinnufólki á kvöldvöku. Sjaldan hefur slíkur lestur staðið lengur en klukkutíma í senn, stundum skemur, ef fólk var almennt þreytt. Og við slíkar aðstæður hefur þessi saga verið ólíkt meira spennandi en nú er þeim sem les hana tímunum saman. Útgefandi hefur (bls. 406) metið lengd sögunnar til 24 klukku¬stunda upplesturs. Hefði efni sögunnar verið skipað í heildarbyggingu, eins og nú tíðkast um skáldsögur, þá hefðu margir getað misst þráðinn. Auðveldara var að fylgjast með runu stuttra ævintýra svo sem enn eru framhaldsþættir sjónvarps nú á dög¬um.
II
Nú er Ólafssaga vitaskuld ekki merkilegt skáldverk. En svo umhuguð sem höfundi hefur verið skemmtun, þá fer því fjarri að hún sé aðalatriðið. Því hér er á ferðinni „saga með boðskap“ - Upplýsingarinnar, sem þá ríkti víða í Evrópu. Um hana má einkum fræðast af greinasafninu Upplýsingin á Íslandi. Þessi stefna kom fram með ýmsu móti, en sameiginlegt er fyrst og fremst barátta gegn hjátrú, m.a. trú á galdra. Svo er og í þessari sögu (bls. 178-90), og bornar eru fram „vísindalegar“ skýr¬ingar á ýmsu í veðurfari og lífríkinu (bls. 101 og 246), líffærafræði (bls. 217) og dýrafræði (bls. 242), meira að segja syndflóðið fær vísindalega skýringu (bls. 243). Ekki veit ég hversu útbreiddar þessar skýringar hafa verið fyrir tveimur öldum, en þótt allt sé útskýrt á náttúrulegan hátt, samkvæmt skynsemishyggju, þá eru þær fullar af villum. Eins og títt var hjá Upplýsingarmönnum, þá er jafnframt skynsemishyggju víða boðuð í sögunni guðstrú og góðir siðir. Enn má telja að aðalpersónan rekur hvernig hann getur margfaldað afl sitt með verkfræðikunnáttu (talíu). Því er þó ekki lýst svo nákvæmlega að dugað gæti sem leiðsögn. Ítarlegar er því lýst hvernig fiskaflann mætti nýta betur með því að láta annars óvirk börn og gamalmenni vinna úr því sem ella færi til spillis. Þetta er í stíl við greinar í upplýsingarritum samtímans, svo sem Rit þess íslenska Lærdómslistafélags (1781-98. Lögð er áhersla á að réttaröryggi þurfi að tryggja, m.a. óhlutdrægni dómara (bls. 339). Og raunar er boðskapur sögunnar enn oft í fullu gildi, t.d. kvenréttindaboðskapur, sem mjög er áberandi í henni. Mikilvægt er talið að konur fái menntun, einnig þegar þær ætli sér ekki embætti (bls. 242), en hæst settu dómarar í álfheimum eru raunar konur. Og ógift stúlka getur orðið yfirboðari föður síns (bls. 168-9). Vegna misskilnings er ung stúlka talin lauslát. Og það leiðir til þess að hún verður það, eftir að hafa þjáðst vegna þessa óhróðurs. (bls. 46. -Síðar fáum við aðra túlkun, að hún hafi í rauninni verið mjög skírlíf þangað til hún hitti ómótstæðilega aðalpersónu sögunnar!). Víðar er fjallað um skaðleg áhrif slúðurs (t.d. bls. 201-2) og um uppeldi (bls. 227). Oft er boðað frelsi í ástum. Þar sem konur hafa jafneðlilega girnd á karlmönnum sem þeir á konum, hví skyldu þá ekki konur sýna þessar tilfinningar sínar hreinskilnislega? (bls. 230). Ekki þarf formlegt hjónaband, gagnkvæmt samþykki aðilja nægir, eins og eðlilegt er í dýraríkinu (m.a. bls. 312). Fjölkvæni er talið eðlilegt - en slíkt gildi þó aðeins fyrir karlmenn (bls. 313). Gerð er (s.st.) mjög veikburða tilraun til að réttlæta misræmið: „Þó eru konur undanskildar þessu lögmáli því að þær [hafa ekki] framar vald síns líkama eftir sem fyrr er sagt.“ María Anna Þorsteinsdóttir hefur skrifað bók um Ólafssögu, og rekur þar m.a. (bls. 123-132) að Upplýsingarmenn hafi oftast verið andvígir kvenréttindum. En kvenhyggja Ólafssögu er annars svo róttæk - m.a. í því að telja greind erfast frá móður - að María finnur áþekk dæmi svo snemma aðeins hjá samtímakonu Eiríks, kvenréttindafrömuðinum Mary Wollstonecraft (móður Mary Shelley, sem samdi söguna af Frankenstein), en ólíklegt er að Eiríkur hafi þekkt rit hennar. María (bls. 133) telur hann því hafa kvenhyggjuna úr álfasögum, þar sem konur eru vissulega oft mikilsmetnar.
Loks má greina áróður gegn mismunun kynþátta í sögunni. Ólafur hefur eignast dótttur með álfkonu, og dóttirin ræðir útlitsmun álfa og manna. Álfarnir líkjast að sumu leyti negrum í útliti (bls. 304, þykkar varir, víður munnur, hörundslitur „gráleitur með öskulit“). En meginatriðið er sú áhersla sem lögð er á hve huglægir mælikvarðar á fegurð séu, og að mælikvarðar manna séu ekki betri en álfa. En ekki mun þessi boðskapur hafa haft mikla hagnýta þýðingu. Enda þótt danska ríkið ætti nýlendur bæði í Afríku (Ghana) og Karíbahafi, var víst mjög lítið um hörundsdökkt fólk í Danmörku, og að því best er vitað var aðeins einn slíkur maður á Íslandi á síðari hluta 18. aldar, virtur verslunarmaður á Djúpavogi. Mikill ættbogi mun af honum kominn, m.a. núverandi forsætisráðherra landsins, Davíð Oddsson. -Loks má nefna merkilega breytingu á sjónarhorni. Eftir að lesendur hafa fylgt lýsingu aðalpersónu á því hvernig hann er ofsóttur með göldrum af álfkonu sem hann vildi ekki þýðast, hittir hann aðra aðlaðandi álfkonu, sem umtúlkar alla söguna lið fyrir lið sem ofsóknaróra hans og tilefnislausar árásir hans á fyrrnefnda konu (bls. 178-80). Þetta er sláandi dæmi um hvernig sagan vinnur gegn ríkjandi hjátrú og fordómum. Og í stuttu máli sagt, allur þessi meginboðskapur hennar er samkvæmt stefnu Upplýsingarmanna, sem einmitt réðu ríkjum í Danmörku þegar Eiríkur kom þangað (sbr. Þorstein Antonsson, bls. 393).
Allur þessi boðskapur er borinn fram sem sjálfsagðasti hlutur, í kurteislegum samtölum viturs og vel siðaðs fólks. Eðlilega eru það hinar framandi verur, álfarnir, sem útskýra samhengi hlutanna fyrir aðal¬persónunni, íslenska alþýðumanninum. Og andmæli gegn þessum boðskap eru kölluð heimska (bls. 278) og koma einungis af augljóslega illum hvötum, frá kaþólskum biskupinum, sem í Upplýsingarritum var eins og hér hefðbundinn fulltrúi andlegs myrkurs og fégræðgi (sbr. Inga Sigurðsson, bls. 21). Og þá eina skýringu sé ég á því að Ólafssaga á að gerast einhverntíma á miðöldum, auðvitað var ekki hægt að gagnrýna höfuð þjóðkirkjunn¬ar fyrir tveimur öldum.
En sagan tekur sjálfa sig ekki alltaf hátíðlega. Einnig eru gamansamar frásögur, svo sem um manninn sem varð fyrir þeim álögum að breytast í hest. Það þótti honum breyting til mikils batnaðar, bæði ánægjulegt að vera innan um heilt stóð af merum, og svo uppgötvaði hann hve fjölbreytilegt ljúfmeti leyndist í grasi (bls. 206-7). Líklegt er að þessa álagasögu byggi Eiríkur á alkunnri sögu Rómverjans Apuleius um gullna asnann, - sem maður breyttist í við álög (sbr. og Maríu, bls. 136).
III
Þegar rætt er um fyrirmyndir þessara sagna hefur verið bent á erlend ævintýrasöfn svo sem Þúsund og eina nótt og Þúsund og einn dag, sem á 18. öld voru bæði til á prenti á dönsku og þýdd á íslensku í handriti (Einar Ólafur, bls. 103. Sið¬fáguð samtöl álfa og manna einkenna einnig víðfrægt ævintýrasafn Frakkans Perrault frá lokum 17. aldar. Og Eiríkur gat víða orðið fyrir bókmenntalegum áhrifum, hann kunni bæði þýsku og latínu, auk dönsku. María telur hinsvegar að Ólafssaga sé einskonar skopstæling á íslenskum riddarasögum og fornald¬ar¬sögum, og feli „með líkum hætti í sér þjóðsöguna og sagan um riddarann sjónumhrygga [þ.e. Don Kíkóti eftir Cervantes] rómönsuna“. Það mætti nefna til styrktar þessari kenningu, að í lok 18. aldar voru fornaldarsögur og riddarasögur ekki aðeins vinsælt lestrarefni á Íslandi, sem menn afrituðu og ortu rímur af, heldur voru menn þá enn að semja riddarasögur. María bendir á þau sameiginlegu einkenni þeirra og Ólafssögu, að þar segi frá kolbít sem fari út í heim, lendi í runu ævintýra og hreppi að lokum sigurlaun. Sögubygging sé frjálsleg, allskyns þáttum skotið inn í söguna, jafnvel tvinnaðir saman tveir eða fleiri söguþræðir. Loks setji þjóðsagnaefni og kurteisi svip sinn á þessar sögur. En til þess að vera uppgjör við slíkar sögur þyrfti Ólafssaga að minna verulega á þær, en hún minnir hvorki á riddarasögur né fornaldarsögur, stíll og persónur eru miklu nær erlendum samtímasögum. Mjög líklegt virðist mér að sögur hans séu innblásnar af Nikulási Klím eftir Holberg. Aðalpersóna þar ferðast um undirheima og fær mikla uppfræðslu um siðvenjur þessara framandi þjóða í skynsamlegum samtölum, einnig þar eru konur æðstu dómarar, margfaldlega er sýnt fram á að ekki megi dæma fólk eftir útliti kynþátts þess, veist er gegn hvers kyns hjátrú, o.fl. mætti telja . Ólafur Þórhallason má því heita sonarsonur Gullivers, Nikulás Klím er milliliðurinn. Virðist mér því verða að hafna þessari kenningu Maríu. Auk þess gerir hún að mínum dómi of mikið úr þroskasögu Ólafs. Enda þótt á honum dynji allskyns fræðsla á hundruðum blaðsíðna þá er hann nokkurn veginn samur maður í sögulok sem byrjun, fremur sögumiðja en að verulega beri á persónulegum sérkennum. En allt um það og þótt frásögusnið sagna Eiríks sé með algengasta móti samtímans, þá var frumlegt og djarft að gera langar skáldsögur úr íslenskum þjóðsögum í lok 18. aldar. Til er lítið safn íslenskra þjóðsagna frá hendi Árna Magnússonar öld eldra, en sínar sögur skrifaði Eiríkur áður en þjóðsagnasöfnun hófst fyrir alvöru, s.s. Grimmsbræðra í Þýskalandi snemma á 19. öld, „Danske folkesagn“ birtist 1818, og Jón Árnason hóf sína miklu söfnun íslenskra þjóðsagna um miðja 19. öld. Sögur Eiríks hafa því mikið gildi sem heimildir um íslenskar þjóðsögur. (Það rakti Einar Ólafur í bók sinni, en María Anna mun rækilegar, bls. 143-233.) En mér virðist að Eiríkur hafi notað þann efnivið til að ná til -hjátrúarfulls- hugarheims íslenskrar alþýðu, til að geta síðan breytt þeim hugarheimi að hætti Upplýsingarinnar, eins og hér hefur verið rakið. En helstu Upplýsingar¬menn svo sem Hannes Finnsson og Magnús Stephensen lýstu yfir megnri andúð á þjóðsögum (sbr. Helgu Gunnarsdóttur, bls. 226-8), og verður þetta athæfi Eiríks þeim mun frumlegra.
En þá vaknar spurningin hvort allt þetta mikla upplýsingarstarf hafi ekki verið unnið fyrir gíg. Þráfaldlega hefur verið bent á að sögur Eiríks höfðu engin áhrif á íslenskar bókmenntir, svo séð verði (Einar Ólafur, bls. 110). Fyrir utan enn óprentaða skáldsögu Jóns Espólins frá 1835-6, sem heitir Sagan af Árna ljúfling yngra (Steingrímur bls. 190 o.áfr.) leið hálf öld frá ritun sagna Eiríks þangað til næst var samin skáldsaga á íslensku, Piltur og stúlka Jóns Thoroddsen. Jón dó svo átján árum síðar frá Manni og konu ólokinni. Þær skáldsögur sem síðan birtust á seinni hluta 19. aldar voru ófrumlegar stælingar á þessum sögum Jóns Thoroddsen. En þær eru ólíkar sögum Eiríks, samdar eftir þeirri sígildu forskrift sem enn drottnar í Hollywood: Ungmenni fella hugi saman, en afskiptasöm foreldri eða önnur miðaldra illmenni reyna að stía þeim sundur, að lokum ná þó ungmennin saman („Boy meets girl, boy loses girl, boy gets girl back”). Að vísu ber töluvert á þjóðsagnaefni og lýsingum á daglegu lífi alþýðu í Manni og konu, mun meira en í Pilti og stúlku. En slíkt efni var þá komið í tísku, með þjóðsagnasöfnun Jóns Árnasonar, og Jón Thoroddsen benti sjálfur beinlínis á fyrirmyndir sínar í þessu; skoskar sveitalífssögur Walter Scott og sagnabálka Gísla Konráðssonar, sem fullir væru af þjóðsagnaefni. Sögur Eiríks voru ekki gefnar út, og aðeins 1-2 afrit eru til, gerð mörgum áratugum eftir dauða höfundar. Útbreiðsla óprentaðra rita er gjarnan talin sjást af því hve mörg afrit eru til af þeim. Sérfræðingur í íslenskum bók¬menntum þessa tíma, Matthew Driscoll í Árnasafni, hefur sagt mér að algengt sé að óprentuð íslensk bókmenntaverk 18. og 19. aldar séu til í 5-7 afritum, jafnvel eru til allt upp í 20 afrit.
Mér þykir þó líklegast, að þessi upplýsingarrit Eiríks hafi haft mun meiri útbreiðslu - og áhrif - meðal alþýðu manna, en prentaðar bækur upplýsingarmanna - rit Lærdómslistafélagsins, Hannesar Finnssonar og Magnúsar Stephensen. Þau rit voru dýr, og hafa því aðallega náð til yfirstéttarinnar á Íslandi. En Eiríkur bar þennan nýja hugmynda¬heim beint til alþýðu, einmitt vegna þess að hann hafði „fallið“ þjóðfélagslega. Flækingar eins og hann þurftu að vinna sér það til matar á bæjum þar sem þeir gistu, að segja sögur, lesa upp, kveða rímur eða segja fréttir. A.m.k. máttu þeir vænta þess að viðurgerningur yrði því betri sem þeir stæðu sig betur í þessu. Má ætla að þetta hafi orðið Eiríki tilefni til sagnaritunar, einkum þar sem hann hafði vegna menntunar sinnar og utanlandsvistar, ýmsu að miðla sem aðrir höfðu ekki. Síst hefur minni áhugi verið á upplestri nýstárlegs efnis í verbúðum, þar sem menn höfðust við mánuðum saman. En Eiríkur stundaði mjög sjósókn. Og vitnisburðir eru um, að eftir kvöldvökulestur ræddu menn auðvitað efni lestrarins fram og aftur, og hefur það enn aukið og fest áhrif þessara nýstárlegu hugmynda.
Jón Árnason vitnaði um þetta starf Eiríks í formála þjóðsagnasafns síns, 1861 og sagði m.a. um Eirík (bls. xviii):
„var þreyjulítill, fór jafnan milli manna og hafði ofan af fyrir sér með því að „segja sögur“ þar sem hann kom og dvaldi eins og fleiri hafa brallað hér á landi, og um leið grófst hann hvervetna eftir sögum þar sem sögufróðir menn voru á bæjum.“
Þetta er ekki aðeins vitnisburður um þjóðsagnasöfnun Eiríks í fjóra áratugi, heldur einnig um upplýsingarstarf hans í ámóta langan tíma, hversu stöðugt og víða sem það nú hefur verið stundað. Mjög yrði erfitt að meta hvenær Upplýsingarhugmyndir höfðu mest áhrif á alþýðu manna, svo ekki sé talað um hvaða aðiljar höfðu þau áhrif. En hitt virðist líklegt af framansögðu, að Eiríkur hafi verið með allra áhrifamestu frömuðum Upplýsingarinnar á Íslandi.
Heimildir.
Árni Kristjánsson: Sagan af Parmes loðinbirni. Skírni 1944, bls. 145-167.
Eirikur Laxdal, 1743-1816: Saga Ólafs Þórhallasonar. Þorsteinn Antons¬son og María Anna Þorsteinsdóttir sáu um útgáfuna. - Reykjavík : Þjóðsaga, 1987 (xiii+ 456 bls., textinn er 372 bls.).
Einar Ólafur Sveinsson: Um íslenskar þjóðsögur. (s 102-110) Hið íslenska bókmenntafélag. Reykja¬vík 1940.
Helga Gunnarsdóttir: Bókmenntir. Bls. 216-243 í: Upplýsingin á Íslandi.
Ludvig Holberg: Nikulás Klím. Jón Helgason bjó til prentunar. Kbh. 1948.
Ingi Sigurðsson: Upplýsingin og áhrif hennar á Íslandi. Bls. 9-42 í: Upplýsingin á Íslandi.
Íslensk bókmenntasaga III. Rvík 1996.
Jón Árnason: Íslenskar þjóðsögur og ævintýri. I-VI. Ný útgáfa, Reykjavík : Þjóðsaga 1954-61.
María Anna Þorsteinsdóttir: Tveggja heima sýn. Saga Ólafs Þórhallasonar og þjóðsögurnar. Íslensk fræði 53, Rvík 1996.
Matthías V. Sæmundsson:Upplýsingaröld. Bls. 21-218 í: Íslensk bókmennta¬saga III.
Munnmælasögur 17. aldar. [m.a. þjóðsögur Árna Magnússonar] Íslensk rit síðari alda, 6. Reykjavík 1955.
Steingrímur Þorsteinsson: Jón Thoroddsen og skáldsögur hans. (s 180-186). Helgafell Reykja¬vík 1943.
Svanhildur Gunnarsdóttir: Sagan af þeim engelska og nafnfræga Berthold (1756). Reykjavík 1995 (ópr. magistersritgerð í Háskólabókasafni).
Upplýsingin á Íslandi. Tíu ritgerðir. Híb. Rvík, 1990.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli