fimmtudagur, 15. febrúar 2007

Humtjöld falla

Húmtjöld hrynja

I. Lesendur þessa pistils muna vonandi upphaf Íslensks aðals, þar sem Þórbergur Þórðarson segir frá upphafi skáldferils síns. Kvöld eitt þegar hann var á leið heim til sín stansaði hann til að horfa á stjörnuhimininn, og varð þá gripinn undarlegri kennd, «eins og allt væri að gliðna í sundur eða renna saman við einhverja óendanlega volduga, ólýsanlega milda einingu, sem eins og væri ekkert, en fæli þó í sér ívist allra hluta.» Og þar með braust fram á varir hans fyrsta erindi af því sem hann fann að yrði langt kvæði:

Nátt-tjöldin hrynja. Himininn rökkvar.
Húmskuggum sveipast foldarbrá.
Kvöldblærinn kyssir láð og lá.
Ljóða hrannir við bakkann dökkva.
En moldin - hún dottar í drifhvítum hjúpi
og dreymir um vor.
Það haustar, og sólin er sigin að djúpi

Þá hljóp Þórbergur í herbergi sitt til að missa ekki andann, háttaði sig og lauk við kvæðið um nóttina, en hreinritaði það hvað eftir annað daginn eftir. «Aðeins fyrsta erindið var óbreytanlegt. Rödd hins eilífa verður aldrei endurbætt í hreinskrift.»
Þetta spurðist út um bæinn, og um vorið birtist kvæðið á forsíðu blaðsins Ísafoldar.
En síðar í bókinni (bls. 157) ber Stefán frá Hvítadal það upp á Þórberg að hann hafi stolið þessu frá Bjarna frá Vogi:

Þú ert svo smekklegur í þér að segja, að nátttjöldin hrynji. Bjarni sagði einhverntíma hér á árunum að náttjöldin falli, og það er miklu fegurra. Þessari hugmynd hefur þú stolið frá Bjarna, af því að þú átt enga skáldlega hugsjón sjálfur. Er það nokkur skáldskapur annað eins og þetta, að segja að nátttjöldin hrynji eins og gamall hundakofi!

Lesið hefi ég ljóðabækur Bjarna frá Vogi, og sýnist sem honum hafi verið flest betur gefið en skáldgáfa. Ekki fann ég þessa mynd í bókum hans. Enda svaraði Þórbergur Stefáni hátíðlega: ”Ég lýsi þig opinberan lygara frammi fyrir öllum, sem hér eru viðstaddir, að þessu, sem þú hefur sagt. Ég hef aldrei nokkurntíma séð né heyrt eina einustu línu eftir Bjarna frá Vogi , þar sem sagt er, að nátttjöldin falli.”
Ég á erfitt með að taka frásögnina um orðaskipti þeirra Þórbergs og Stefáns trúanlega, nema sem úthugsað níð af hálfu Stefáns. Þessi líking er hinsvegar víða annarsstaðar hjá miklu frægari skáldum.
Elsta dæmið sem ég hefi séð er hjá Guðný Jónsdóttir frá Klömbrum, í kvæðinu „Endurminningin er svo glögg” (fyrst prentað 1837, skv. Þjóðskáldin, bls. 73), en þar er talað um að sólin dragi fyrir tjöld sem varpi skuggum á grund:

þá ljómandi færði fagrahvel
forsælu misjöfn skuggatjöldin
yfir hvern blett og hvert eitt svið
hinum megin við sólskinið.

Þarna er þá skýjunum greinilega líkt við gluggatjöld. Í kvæðum Benedikts Gröndal fyrstu árin er nokkuð á annan tug dæma þessara mynda, á árunum 1853-60 margnotar hann mynd þar sem sjóndeildarhringurinn er sem tjaldaður salur, líkt og í fornsögum, einna skýrust er þessi mynd í Hugfró (1858):

meðan kvöld
hin undurbláu gullnu geislatjöld
ginndjúpu breiðir fram í næturheiði.
(Hugfró, bls. 222)

Svipuð mynd er hvað eftir annað hjá Steingrími Thorsteinssyni:

Dagur brýst senn inn í draumhimins tjöld,
Draumunum árgeislar hrinda,
(Þúsund ára sólhvörf 1874, bls. 15)

Hin heiðu kvöld,
Er himintjöld
Af norðurljósa leiftrum braga.
(Eg elska yður, þér Íslands fjöll, bls. 19)

Sól, þitt ljós þeim lifi' í minni,
Lýsi fram á hinsta kvöld;
Brátt er hvarfstu' að hvílu þinni
Heiðstirnd blika salar tjöld.
(Brúðkaupskvæði S. G. og S. E., bls. 323)

Síðar breytist þessi líking í ítarlegri mynd, sem mér finnst eðlilegra að túlka sem fortjöld í leikhúsi, hreyfing þeirra minnir norðurhjarabúa eðlilega á sveipandi hreyfingu norðurljósa, en þau sjást víst mest á norðurhjaranum, og ekki veit ég hvort þessi leiktjaldalíking er í erlendum kveðskap, en hjá Steingrími er hún í kvæði sem einmitt ber heiti af norðurljósum (birt eftir 1881):

Hve leiftrar þeim fylgjandi
Litbrigða fjöldinn,
Er blaktandi, bylgjandi
Breiða þau tjöldin,
Með ljósgullnum, heiðgrænum, lifrauðum röndum,
Svo létt sem þau bærð væru' af ósénum höndum!
Þau sveiflast í fellingum, svipa með logum,
(Norðurljósin, bls. 279)

Þórbergur sagði síðar um fyrsta kveðskap sinn (Edda, bls. 18), að þá hefði hann verið „á stefjagaleiðu Einars Benediktssonar”, þ.e. verið svo gegnsýrður af kvæðum Einars, að hann hefði ekki getað sýnt neitt sjálfstæði í ljóðagerð. Nú ber þetta kvæði Þórbergs augljóslega mikinn svip af kvæðum Einars, stuttar aðalsetningar í löngum erindum. Enda sagði hann sjálfur (Edda, bls. 21): „Áhrifin frá Einari Benediktssyni voru að sönnu öllum auðsæ.” Og einmitt hjá Einari er þessi mynd margendurtekin, ekki sjaldnar en tíu sinnum bara í fyrstu tveimur ljóðasöfnum hans, sem birtust 1897 og 1906. Myndin er aldrei eins ítarleg og í síðasta dæminu sem hér var tekið eftir Steingrími, né er þessi iðandi hreyfing, sem tengir leiksviðstjöld við norðurljós. Einar notar einfaldlega orðið „tjöld” með ýmiskonar ákvörðunarliðum til að tákna himin, -væntanlega skýjaðan- eins og Benedikt Gröndal, en mest ber hér á ljósbliki:

Hilling, lát speglast við himins tjöld
héraðið forna um sögunnar kvöld.
(Hilling, bls. 122)

og verk öIl Ieggjast í lífsins sjóð,
undir Ioftsalsins blikandi tjöldum.
(Við jarðarför Stgr.J., bls. 191)

í anda ég sé gegnum blámans tjöld,
finn strengina á heiðloftsins hörpum titra.
(Stjarnan, bls. 104)

Einnig eru himintjöld kennd við sól og mána:

Fyrir handan vetrarkvöldin
sé ég glampa á sólartjöldin.
(Þokusól, bls. 115)

en hér og þar lyftist ein harðfleyg önd
og hálsinn teygir svo langt sem hún eygist,
í gegnum sólroðans tindrandi tjöld.
(Í Slútnesi, bls.109)

óhappsvættar lofts í glugga
helráð brugga tungls við tjöld.
(Skýjafar, bls. 150)

- og við þoku:

Bak við þokubakka tjöldin
bíða í vestri rökkurkvöldin.
(Þokusól, bls. 114)

og loks kennir hann himintjöldin við húm:

Húmtjöldin falla og hylja allt liðið,
vér hringjum út öldina gömlu í kvöld.
(Aldamót, bls. 78)

Nú dýpkar og blánar hvolfsins hylur,
og húmblæjur kvika um geislanna brunn.
(Í Slútnesi, bls.109)

Stefán hefði mátt bæta því við skammir sínar við Þórberg, að 5. l. kvæðis hans minnir ansi mikið á "Sjálf moldin er hrein eins og mær við lín" í Norðurljósum Einars Benediktssonar, en "moldin - hún dottar" er svo skringilega smekklaust, að það er nánast eins og skopstæling á línu Einars. Og fleira minnir hér á hann. Nú má vera að Sigurður Sigurðsson frá Arnarholti hafi ekki verið þeim Stefáni og Þórbergi ofarlega í huga þegar þeir rifust í Vaglaskógi, en orðalagið í kvæði Þórbergs minnir mest á línur í einu frægasta kvæði Sigurðar, Hrefnu. Og ljóðmyndin, sem þar birtist, er aftur mun líkari þeirri sem hér var höfð eftir Steingrími, en það sem við nú höfum séð eftir Einar Benediktsson. Blærinn á m.a. að færa Hrefnu kveðju mælanda, sem er nú fjarri henni, "þungt er það, Hrefna, að elska, vaka og bíða." En gegn þessum söknuði kemur önnur tilfinning, samkennd ljóðmælanda með heiminum. Því hefst þessi ljóðkafli á glæsilegri mynd, haf og himin sér mælandi sem leikhússsal, á hvelfingu hans eru dauf ljós (stjörnurnar), en norðurljósin eru sem leiksviðstjöld á hreyfingu:

Kvöldsett er löngu. Himins húmtjöld síga
hægt fyrir sviðið. Öldur þagna, hníga
Skuggarnir vefjast um brekkur bylgjudala,
blikstjörnur tindra á hvelfing Unnar sala.

Andvarinn líður, eins og torrek tóna,
titrandi þýður gegnum næturróna
skilur hann, blærinn, sköpin okkar þungu?
Skynjar hann braghreim sinnar eigin tungu?

Þessi kvæðishluti birtist fyrst árið 1905 (sbr. Ljóðasafn Sigurðar, bls. 21), og virðist líklegt að Sigurður hafi m.a. orðið „húmtjöld” frá kvæðum Einars Benediktssonar, sem hann orti lofgjörð um. Þessi mynd kemur fyrir hjá fleiri skáldum þessa tíma. Hulda dregur fram lit 1909 (í Á ferð, bls. 113):

það bliknuðu gullský og bjartur sær,
und blárökkvað húmtjald gekk dagur skær,
en þú stóðst og hreyfðir ei hendur.

Jónas Guðlaugsson notar myndina þráfaldlega nokkrum árum áður en Þórbergur, t.d. 1906: „Í rökkurkyrrð er húmskuggar himinhvelið tjalda” (Ljósleitin, Tvístirnið, bls. 41).
Einnig persónugerir hann húmið og gerir myrkrið að rekkjutjöldum himins (1909):

Hljótt er kvöld, um háa tinda
húmið breiðir rekkjutjöld;
bak við sæ og svarta rinda
sólarglóðin hinsta er föld.
(Fram hjá Fróðá, Dagsbrún, bls. 19)

Til sólarinnar segir hann:

Lát hylja húmsins tjöld
þinn hyr þú lýstir nóg!
(Bergnuminn, Dagsbrún, bls. 46)

Þótt hafið tjaldi með húmsins skuggum
þau horfa á áttina gegnum myrkrið,
(Sigling, Dagsbrún, bls. 90)

Það er ekki um að villast, að þessi ljóðmynd í upphafi kvæðis Þórbergs er af því tagi sem er ætlað að vera mjög áhrifamikil, en hefur verið notuð svo mjög af mörgum skáldum undanfarandi hálfa öld (-a.m.k.), að hún verður ekki kölluð annað en klisja. Hinsvegar er hún svo miklu minna á flugi nú orðið, að hún virðist ekki lengur eins slitin. En nú sjáum við hvers eðlis skáldlegur innblástur frá „rödd hins eilífa” er byrjanda í skáldskap. Skáldið er einfaldlega gagntekið af klisjum, sem það skilar frá sér í mun lakara formi en það meðtók þær. En mjór er mikils vísir, fáeinum árum síðar birtust fyrstu bækur Þórbergs, Hálfir skósólar, 1915 og Spaks manns spjarir, 1917, lítil kvæðakver, full af skopstælingum á kveðskap samtímans, einkum af væmnara tagi. Þau voru endurprentuð með viðaukum í Hvítir hrafnar, 1922, og enn í Eddu Þórbergs, 1941.

II
Víkjum nú aftur að húmtjöldum Einars Bendiktssonar. Eitt magnaðasta kvæði hans er Kvöld í Róm, sem fyrst birtist á árinu 1905. Þar sem kvæðið rifjar upp stórveldistíma Rómverja, þá ber myndmál þess einmitt svip af honum, nánar tiltekið er kvöldhimninum líkt við purpuraskikkju, svo sem Rómarkeisarar báru. Sú mynd minnir á húmtjöldin, sem fyrr var um rætt, og rammar inn Rómarsögu kvæðisins:

Kvöld með rauðri skikkju og bláum faldi. (1. erindi)

Lýsist kvöldsins rauða skikkja - og hrynur. (6. erindi).

Innan þessa ramma rekur ljóðmælandi í megindráttum þróun og hrun Rómarríkis, og dregur síðan lærdóma af þeirri sögu. Þær vangaveltur ná yfir allan seinni helming kvæðisins, og meginspurningin er: Var þetta allt til einskis, öll þessi list og snilld, sem fór forgörðum? Og svarið er þetta ógleymanlega erindi:

Mást skal lína og litur, steinn skal eyðast,
listarneistinn í þeim skal ei deyðast.
Perlan ódauðlega í hugans hafi
hefjast skal af rústum þjóða og landa.
Komi hel og kasti mold og grafi,
kvistist lífsins tré á dauðans arin,
sökkvi jarðarknörr í myrkva marinn,
myndasmíðar andans skulu standa.

Mér sýnist að þetta sé hughyggja að hætti Hegels, fremur en Platons, ekki er um að ræða eilífar hugmyndir, sem ævinlega móti hverfula hluti að meira eða minna leyti, heldur leiða hverfulir sigurvinningar mannsandans til hægfara þróunar mannkyns, að andlegri fullkomnun.
Þetta kvæði hefur marga hrifið, og meðal þeirra Jón Helgason. Því eitt frægasta kvæði hans, Í Árnasafni, virðist beinlínis ort gegn þessu kvæði Einars. Það er að vísu ósannanlegt, Jón líkir ekki eftir kvæði Einars, hvorki í bragarhætti, myndmáli né neinu öðru en yrkisefni í meginatriðum. Því eins og allir lesendur þessa pistils vita, fjallar kvæði Jóns um verk hans og annarra í Árnasafni, að bjarga fornum menningarverðmætum frá glötun. Þessi fornu íslensku rit eru á sinn hátt veðruð, ekki síður en myndastyttur og byggingar Rómaveldis. En kvæði Jóns lýkur á niðurstöðu, sem er fullkomlega andstæð Einars; allt hlýtur að tortímast að lokum, hvernig sem menn reyna að bjarga myndasmíðum andans frá glötun:

Bókfellið velkist, og stafirnir fyrnast og fúna,
fellur í gleymsku það orð sem er lifandi núna,
legsteinninn springur, og letur hans máist í vindum,
losnar og raknar sá hnútur sem traustast vér bindum.
(Kvæðabók, bls. 13)

Eitt af þvi sem mest magnar kvæði Jóns Helgasonar er undirstraumur í myndmáli kvæðisins, en sameiginlegt ljóðmyndunum er einmitt margskonar straumur:

heyrði ég þungann í aldanna sígandi straumi. (1. erindi)

við eyru mér ólguðu og sungu
uppsprettulindir og niðandi vötn minnar tungu. (2. erindi)

glymjandi strætisins frábrugðin suðinu í ánum, (6. erindi)

Vatnsfallið streymir af ókunnum öræfaleiðum,
andblærinn líður um túnið af fjarlægum heiðum, (7. erindi)

Stundum var líkast sem brimgnýr er þaut mér í blóði,
bergmál af horfinna kynslóða sögum og ljóði, (8. erindi)

Hvíslar mér jafnan á orðlausu máli hér inni
eyðingin hljóða, (9. erindi)

Straumur bíla og fólks eftir götu (Fiolstræde), árniður, vindur, brimgnýr, þetta er ýmiskonar útfærsla á frægu orðtaki: „Pan rhea”, allt fram streymir. Og þetta verður eðlilegur grundvöllur líkinganna: uppsprettulindir málsins, straumur tímans. Og allur þessi óstöðvandi og margvíslegi straumur kvæðið í gegn undirbýr og styrkir ályktun þess, að eyðingin hljóða sé einnig óstöðvandi straumur.
Við höfum nú hugað að ýmiskonar innblæstri skálda útfrá nátthimninum. Síðasta dæmið virðst mér þó með þeim glæsilegri, því það sýnir svo sjálfstæð viðbrögð.
Tjaldið fellur.

Tilvitnuð rit:

Benedikt Gröndal: Ritsafn I. Reykjavík 1948.
Davíð Stefánsson: Að norðan. Ljóðasafn I-III. Reykjavík 1965.
Einar Benediktsson: Kvæðabók. Reykjavík 1994.
Hulda: Kvæði. Reykjavík 1909.
Jónas Guðlaugsson og Sigurður Sigurðarsson: Tvístirnið. Reykjavík 1906.
Jónas Guðlaugsson: Dagsbrún. Reykjavík 1909.
Jón Helgason: Kvæðabók. Reykjavík 1986.
Sigurður Sigurðarson: Ljóðasafn. Reykjavík 1978.
Steingrímur Thorsteinsson: Ljóðmæli. 4. útgáfa, Reykjavík 1925 (borin saman við 1. útgáfu, Reykjavík 1881).
Þjóðskáldin. Úrval úr bókmenntum 19. aldar. Reykjavík 1992.
Þórbergur Þórðarson: Edda. 2. útgáfa aukin, Reykjavík 1975.
Þórbergur Þórðarson: Íslenskur aðall, 3. pr. Reykjavík 1971.

Ég þakka Kjartani Ottóssyni prófessor við Oslóarháskóla gagnlegar ábendingar. Þetta var sett í afmælisrit Jonnu Louis Jensen sextugrar, Freyjas psalter 1997, en fyrri hlutinn tekinn upp í rit mitt Seiðblátt hafið, 2006.

Engin ummæli: