fimmtudagur, 15. febrúar 2007

Unglingabækur

Til hvers eru unglingabækur?

Um þetta væri nær að spyrja unglinga en miðaldra bókmenntafræðing. Og það væri gaman að athuga hvaða lesefni er vinsælt hjá unglingum, og í hvaða mæli. Útgefendur ættu að vilja kosta slíka skoðanakönnun, því unglingabækur eru meðal þess sem best selst hjá þeim. Raunar liggur fyrir umfangsmikil rannsókn um þetta efni í tölvum Félagsvísindadeildar Háskólans og bíður úrvinnslu. Fyrir tuttugu árum birtist viðamikil könnun dr. Símonar J. Ágústssonar á lestrarvenjum barna og unglinga (afar vel orðuð, svo sem þessa höfundar var vandi). Samkvæmt henni lesa unglingar alls kyns bækur, áhugasvið þeirra reyndist mjög vítt, þótt hefðbundnar drengja- og telpnabækur væru vinsælastar. En hvað sem könnunum líður væri lítandi á fáeinar bækur út frá spurningu fyrirsagnar þessarar greinar.
Þeir sem þetta lesa eru eða hafa allir verið unglingar og muna að unglingar eru með ýmsu móti rétt eins og annað fólk, en þetta er undarlegt æviskeið þegar fólk finnur skarpt fyrir tilverunni en eðli hlutanna er hverfult, einkum eðli manns sjálfs. Er þá ekki best tyrir unglinga að þeim sé komið í kynni við allskyns bókmenntir, ljóð, leikrit og sögur, svo þeir geti valið það sem þeim hentar hverju sinni? Fyrst unglingar eru að verða fullorðnir, geta þeir þurft bækur fullorðinna. Og því ætti að taka með jafnaðargeði þótt unglingar gleypi í sig rusl, þeir geta ekki vaxið upp úr því öðru vísi. Þeir eru að læra hlutverk og það er af djúpri þörf sem þeir leggjast í bækur höfunda eins og Hammond lnnes og Alistair McLean. Þeir purfa að átta sig á karlmennskudýrkuninnì sem gegnsýrir samtélagið. Framhjá henni komast þeir ekki, en það má hjálpa þeim við að yfirstíga hana með rökræðum um svona bækur og kvikmyndir, hver sé meiningin með þeim, af hverju aðalpersónan sé höfð svona o. s.frv. Sjálfsagt eru hliðstæð rök til þess að stelpur leggjast í ástarsögur. Það gera strákarnir raunar líka, þær eru bara dulbúnar. Eða hvaða höfundur spennusagna og -mynda þorir að sleppa ástamálum úr verki sínu?
En þurfa þá ekki unglingar líka bækur og kvikmyndir sem fjalla beinlínis um þeirra sérstöku vandamál og stöðu? Ráða þeir ekki betur við öryggisleysið, múghyggjuna, ný hlutverk, upphaf kynlífs og ástar ef þeir sjá þetta sérstaklega tekið fyrir sem unglingavandamál? Það væri einmitt þetta sem skoðanakönnun þyrfti að kanna. Auðvitað hafa flestir slampast í gegnum unglingsárin án slíkra bóka, en það sannar ekki að þær gætu ekki verið gagnlegar.

Sextán ára í sambúð
Hvað sem öllu ofangreindu líður, held ég að metsölubók ársins 1985, Sextán ára í sambúð eftir Eðvarð Ingólfsson, sé unglingum álíka gagnleg og fanga er slagbrandur fyrir herbergisdyrum og rimlar fyrir glugga. Aðeins titillinn er heil stefnuskrá: tjóðrum unglinga, lokum þá sem allra fyrst inni í föstum hlutverkum Meðaljónsins. Og sagan stendur við fyrirheit titilsins í einu og öllu. Söguhetjan gengst upp í friðsamlegri sambúð við vaxandi bumbu, hamingja hans í lítinu er að eignast notað sjónvarpstæki og annað innbú, óvænt terta á kvöldin og fjölskyldusamkvæmi. Ekkert þar fyrir utan. Þetta er bara sagan um það hvernig svìplaus einstaklingur tileinkar sér samnefnara lífsgæða i samfélaginu, tekur öll meðaltalsviðhorf góð og gild spurningalaust. Einkalífið eitt skiptir máli, einstaklingssérkenni eru engin, bara fylgt viðurkenndri fyrirmynd (bls. 85):

Við skulum biðja þess áður en við sofnum. Biðja þess á jólanótt að barnið fæðist heilbrigt.
Hann var viss um að það væri áhrifaríkt að biðja slíka bæn á sjálfri jólanóttinni þegar heimurmn var að minnast fæðingar frelsarans. Þau trúðu bæði á Guð og báðu stundum saman á kvöldin.
Lísa fór rneð bænina en Árni bað Faðirvorið á ettir. Þau voru ófeimin við að biðja upphátt hvort í návist annars. Þau höfðu vanist því þegar þau voru eitt sinn í kristilegum félögum, hann í KFUM en hún í KFUK. Síðan þá var bænin ekkert feimnismál.

Andstæða parsins í sögumiðju, sem heldur saman i gegnum þykkt og þunnt, staðfestan og tryggðin holdi klædd, eru vinir þeirra sern rjúka sundur og saman, og foreldrar hennar höfðu skilið, móðir hennar er þunglyndissjúklingur. Söguhetjur hugsa ekki um annað en nánustu tjölskyldu sína, vini og vinnufélaga. Bókin er full at nöfnum úr poppinu—væntanlega til að telja lesendum trú um að söguhetjan sé unglingur, en annars bendir fátt til þess. Lagleg hnáta er að leggja snörur sínar fyrir Árna og gerist æ opinskárri á þeim vettvangi. En hann stenst það allt af kristilegri hugprýði —því hann kann boðorðin. Annars er ekki að sjá að þetta sé mikil freisting fyrir hann, því andlegt líf er ekki sjáanlegt i honum frekar en öðrum persónum þessarar bókar sem rísa hæst í þjakandi aulafyndni eins og þessu (bls. 27):

- um nískasta Skotann sem sagði við son sinn: ,,Skiptu þessu bróðurlega milli ykkar systkinanna, Nonni minn, — og rétti honum blöðru. Ha, ha, ha.

Það fer nú ekki milli mála að einmitt andleysi sögunnar og boðskapur um aðlögun að ríkjandi viðhorfum hefur tryggt henni sölumetið. Það eru ekki unglingar sem kaupa bókina, heldur foreldrar þeirra, frændfólk, afar og ömmur. Vilja þau þá að unglingar fari í sambúð sextán ára? Nei, það tekur enginn alvarlega. Hitt hafa kaupendur frétt að ritstjóri Æskunnar skrifaði hollar bækur, sem hefðu góð áhrif á unglinga. Síðan er salan eins og snjóbolti í fjallshlíð. Í ósjálfstæði sínu og öryggisleysi vilja flestir bara kaupa þá bók lil gjafa sem selst best.
Nú er ég ekki að segja að áhrif bókarinnar á lesendur hljóti að verða þau að heilaþvo þá unnvörpum til hversdagslegrar meðalhegðunar, andlausrar takmörkunar við einkalífið. Áhrif bókar fara eftir því hve gagnrýnum huga hún er lesin. Þessi bók gæti einmitt opnað augu margra fyrir því feiknalega innrætingarkerfi sem hún ber í sér og beinist gegn unglingum til að gera á sem fyrst að þægum tannhjólum í þjóðfélagsvélinni. Rædd frá því sjónarmiði efast ég ekki um að hún yrði gagnlegri til slíks en margar greinar um þjóðfélagsmál. Því ferlið er þarna allt. En gallinn er hins vegar bara sá hve óvenju leiðinleg bókin er aflestrar. Belgingsleg lágkúra er megineinkenni stílsins, t.d. (bls. 103):

Mamma gerði það viljandi að láta mig sofa bæði í fötunum og ælunni svo að ég áttaði mig betur á hvað ástand mitt var slæmt. Hún ræddi þessi mál ítarlega við mig og síðan hef ég ekki bragðað áfengi...
Árni hafði aldrei fundið löngun hjá sér til að bragða vín. Sennilega var það vegna áhuga hans á íþróttum. Hann vissi að áfengi og íþróttir eiga ekki saman. Menn náðu ekki eins góðum árangri ef þeir drukku...
Áramótaskaupið var eins og oft áður um atburði sem gerst höfðu á árinu sem var að líða. Þeir voru rifjaðir upp í spaugsömum dúr og blandaðir hæfilegu kryddi.

Töff týpa á föstu
Þessi bók Andrésar Indriðasonar er frábrugðin Sextán ára í sambúð. Hún er í fyrsta lagi ekki leiðinlega skrifuð. Í öðru lagi verður í henni vart við persónusköpun, þar sem eru móðir söguhetju og bróðir. Vissulega eru þessar persónur einfaldar, en þær eru sjálfum sér samkvæmar í tali og hegðun og hvor mcð sínu sníði. Móðirin hefur mestan áhuga á skemmtanalífinu, og sést óbeint á tali hennar að hún er með sektarkennd gagnvart syninum (bls.74):

Hann eltir mömmu sína fram í eldhús; hún er í sæluvímu.
-Þú ert farin að reykja!
- Æ, Elli minn, segir hún og er að flýta sér, þetta er bara fikt. Ekki vera hneykslaður á mömmu þinni, ekki vera það. elskan.
- Þú ert búin að reykja eins og strompur í allt kvöld. Það var eins og Áburðarverksmiðjan væri komin inn í stofu. Og hvaða græna gums er í þessari flösku?
Þetta? Æ, hún Gússí kom með þetta. Þetta er bara létt vín, voðalega létt. Ætlar þú ekki bara að fara að sofa, elskan? Eg sé nú að þú ert orðinn þreyttur.

Lási bróðir talar um sambúð sína við konuna og dregur úr öllu, talar almennt (bls.173):

- Elli minn... eins og maður sé ekki alltaf að reyna. Það er svo margt sern spilar inn í þetta. Þetta er ekki bara mér að kenna hvernig komið er. Við erum ferlega ólík við Heiða, það er nú gallinn . . . og svo eru það hjónin á efri hæðinni (tengdaforeldrar hans)... það er alveg óþolandi að hafa þetta ofan í sér öllum stundum ... það er fylgst með hverri hreyfingu manns, hvers konar líf heldurðu að þetta sé?

Hér virðist líka vera á ferðinni raunverulegur unglingur þar sem söguhetjan er, bólugrafin og þjökuð af vanmetakennd. Í sögunni er dregin upp ágæt mynd af því hve einmana hann er og vesæll í eigin augum í samanburði við skólabræðurna sem eru töff, með stelpum og í klíkunni. Hann leitar huggunar í því að hugsa um draumadísina handan við flóann (bls. 46-7):

Það var bara einn galli við þetta.
Eva er alveg hætt að láta heyra í sér.
Ef hún hringir ekki þá er það vegna þess að hún er búin að afskrifa hann...
Hún hlýtur að hringja.
Það er kannski búið að vera mikið að gera hjá henni... eins og hjá honum... hann veit að hún á eftir að hringja, finnur það á sér og reynir að hafa ekki áhyggjur af þessu.
Hann sér ljósin á Akranesi út um gluggann í herberginu sínu, blikandi ljósahaf þegar kvöldar. Þá hugsar hann til hennar...
Það er mynd af henni á korktöflunni fyrir framan skrifborðið, það mega allir sjá hana sem vilja. Hann klippti þessa mynd út úr blaði í sumar. Fyrst faldi hann hana niðri í skúffu, nú er hún komin upp á korkinn og farin að gulna af því sólin skín á hana stundum en það gerir ekkert til, hún er jafn sæt þó hún gulni, í stuttbuxum og bol á íþróttavellinum, veifandi og brosandi,
Það er svört nótt úti og kyrrð.

Hér segja andstæður litanna mikið: sólskin á gulnandi mynd stúlkunnar, fjarlæg ljóstýra í svartnættinu sem ríkir.
Faðir drengsins er dáinn og hann býr einn með móður sinni. Hann er afbrýðisamur út í eldri bóður sinn og karlmann sem móðirin kemst í kynni við. Ekki hugsar hann mikið um annað en þetta, og svo laglega, vinsæla bekkjarsystur sem er að manga til við hann, en hann er alltof feiminn til að þora að taka það alvarlega — hleypur bara burt. Tekið er fram að honum leiðist vídeóklám.
Nema hvað — allt i einu umturnast okkar maður. Það var eins og hann hefði skáldað upp kærustuna á Akranesi til að vera mannalegri, en þá birtist hún bara einn daginn og vinurinn lendir í sleik og gælum. Annað eins getur nú skeð — og er einmitt alltaf að ske á unglingsárunum: ljóti andarunginn verður að fallegum svani. En söguhetjan ummyndast bara alveg umhugsunarlaust — og vandalaust. Stekkur allt í einu út á gólf í félagsmiðstöðinni og setur e.k. Íslandsmet í skrykkdansi — og hann sem var að drepast úr feimni! Hann tekur ákvarðanir, ræður fram úr hverjum vanda, getur meira að segja sett upp hillur í kjallarageymslunni fyrir mömmu sína, þar þurfti ekki stórabróður til. Svo þegar stóribróðir kemur fullur heim til hans, búinn að yfirgefa konu og barn, er það litlibróðir sem huggar hann og kemur fyrir hann vitinu. Og aldrei nein umhugsun, engin vandamál.
Er hægt að hugsa sér meiri draumórabókmenntir? Þetta er bara gamla sagan um Súpermann, sem þarf ekki einu sinni símklefa til að umbreytast. Draumadísin fjarlæga, sem virtist hrein ímyndun, hún er allt í einu komin upp í rúm til hans. En — þegar á reynir — verða þau auðvitað sammála um að gera það ekki. Hvers vegna? Til þess að bókin seljist betur, grunar mig, þótt þetta kunni að vera í samræmi við skoðanir höfunciar. Hverjir velja jólagjafir handa unglingum? Hve margir unglingar hefðu fengið þessa bók í jólagjöf ef frést hefði að söguhetjurnar í henni væru ekki til fyrirmyndar að dómi fullorðinna?

Andleysi
Í rauninni er þessi bók skrifuð fyrir fullorðna eins og Sextán ára í sambúð, þótt þær séu handa unglingum. Verður ekki að segja það sama um bókina Flautan og vindurinn eftir Steinunni Jóhannesdóttur? Èg á ekki fyrst og fremst við kynlífshömlurnar, sem allar bækumar setja þó í öndvegi. Þær hömlur eru vitaskuld til meðal unglinga. kannski enn fremur en meðal annarra aldurshópa. Ætla má að bækumar eigi að kenna strákum að bera virðingu fyrir vilja stelpna, að taka mark á þvi ef þær segja nei. En til þess þyrfti að fjalla meira um sálarlíf. Þetta er alltof einföld afgreiðsla á átökum og árekstrum.
Það versta við þessar bækur er andleysið. Persónurnar eru ekkert annað en hlutverk og stöðluð eftirlíking af nokkrum tískuorðtækjum unglinga. Nær ekkert sést af draumum þeirra, þrám og ótta. sem hver einasta mannvera á til, unglingar ekki síður en aðrir. Því finnast mér þessar bækur allar innilega falskar, þær sýna ekki unglinga, heldur vald fullorðinna yfir þeim. Það er athyglisvert, að aukapersónur skuli vera best gerðar hjá Andrési. Það er eins og hann knýi skáldfák sinn til að lötra lestarganginn en skepnan sé of fjörmikil til að hún verði alveg hamin.
Nú er bók Steinunnar Jóhannesdóttur samin sérstaklega fyrir unglinga með lestrarörðugleika og má þá væntanlega ekki gera miklar kröfur aðrar. Að minnsta kosti hlýtur að vera illmögulegt að semja listaverk úr takmörkuðum orðaforða. Sagan beinist einkum að því að sýna sanna mynd af lífi unglinga, og gerir það, en sú mynd er bara öll á yfirborðinu, almenn umfjöllun. Andstæður mætast, stúlka af menntuðu millistéttarheimili verður veðurteppt hjá strák úr lágstétt. Það er helst þegar strákurinn hlustar á stelpuna leika á flautu, og að nokkru leyti þegar hann reynir við hana, að sagan öðlast einhverja dýpt. Það fer vel á því að listin og kynhvötin skuli opna innsýn í nýjan heim i skarpri andstöðu við hversdagslega lágkúruna sem ella yfirgnæfir. En það nær ekki langt— enda er sagan nánast takmörkuð við eina samverustund tveggja persóna í tómu umhverfi.

Lifandi persóna
Takmarkanir pessara sagna sjást best ef þær eru bornar saman við bók eins og Vorið þegar mest gekk á eftir Gunnel Beckman. Sú saga segir frá unglingsstúlku í Svíþjóð og hefst á miklum umskiptum í lífi hennar. Hún er að byrja í nýjum skóla, foreldrar hennar eru að skilja, hún er búin að missa bæði móður og litlu systur frá sér og líka búin að missa allt samband við strákinn sem hún var með. Ástæðan er sú að hún hélt að hún væri ófrísk eftir hann og varð hrædd við alla þá ábyrgð sem við blasti. Besta vinkonan hefur fjarlægst lika og hún situr ein eftir með niðurbeygðum föður sínurn. En þá fær hún þá frábæru hugmynd að sækja ömmu sina út af elliheimilinu, og sú gamla gengur henni í móðurstað. Þetta er endurbætt móðir, aldrei þreytt eða önug, enda hefur hún ekki annað að gera en sinna stúlkunni, og rexar aldrei í henni. Raunar er amman alveg ótrúlega nútímaleg í skoðunum, en skapar jafnframt sögulega dýpt í aðalviðfangsefni sögunnar, sem er aðstæður kvenna, því hún lýsir æsku sinni og móður sinnar. Ótrúlega nútímaleg segi ég, því amman er ekki sanntærandi persóna heldur augJjóslega málpípa hötundar.
Lifandi persónur eru ekki í þessari sögu nema ein, sú sem mestu máli skiptir: aðalpersónan. Og að nokkru leyti pilturinn hennar, hann Marteinn. En aðalpersónuna skynjum við raunverulega sem slíka — lifandi, hugsandi, í vafa og vanda. Þetta er einkum vegna þess hve vel við kynnumst henni við ýmsar aðstæður. Það er fyrrgreindur skilnaður foreldranna, ótti um að amma hennar sé að deyja, kvíði hennar og þrá í ástarsambandinu við Martein. Og ólíkt aðalpersónum fyrrgreindra sagna hugsar hún um aðstæður sínar, reynir að átta sig á þeim frá eigin sjónarmiði. Þetta fléttast saman við myndrænar umhverfislýsingar, sagan gerist ekki á afstrakt hugmyndasviði. Athugið t.d. litina í þessu (bls. 60):

Geislandi vorvetrardagur hentist áfram fyrir utan gluggann.
Vötnin meðfram Alingsås voru eins og spegilslétt ísgólf með grenigræna og birkibláleita jaðra. Gulir, auðir fletir, snjóskaflar norðan megin, leirugir vegir, dimmbláir uxahryggir fjallanna í fjarska, stöðvarhús úr hvítum og gulum tígulsteini, vatnsgeymir og hvítar kirkjur, símalínur sem risu og hnigu. Allt þetta þaut framhjá blindum augum Maju undir bláum himni sem minnti fremur á apríl en febrúar.
Maja fékk sér banana.
En hvað allt var erfitt.

Vissulega er það ekki alltaf sem aðalpersónan er sannfærandi. Fyrir kemur ritgerð frá sjónarhóli fullorðins, sem lýsa á hugarheimi hennar (bls. 77):

Það var eins og hver dagur væri orðinn svo mikilvægur á einhvern hátt, maður lærði marga hluti en vissi ekki almennilega hvernig átti að bregðast við þeim. Stundum var maður sjálfsöruggur og glaður og nærri fullorðinn, en á næsta augnabliki saknaði maður mömmu sinnar og langaði mest til að fara að gráta. Kannski var hún seinþroska... aðrar stelpur virtust svo öruggar með sig. Þegar hún hugsaði til þess hvemig hún hafði hagað sér í haust, þegar hún hélt að hún væri ólétt, fannst henni að hún hefði verið ruglaðri og óákveðnari en tilefni hefði verið til... en ekki gat hún gert að því hvernig hún var.

Ég hef ekki trú á því að unglingsstúlka komist svona að orði. Ég held að þetta sé sett hér til að réttlæta andstæður i fari hennar sem stafa af því að hún á í senn að höfða til lesenda sem ímynd þeirra og vera þeim til fyrirmyndar. Til dæmis um þetta síðarnefnda er það, að ekkert kynslóðabil er milli hennar og ömmunnar, hún er stolt af ömmu sinni gagnvart jafnöldrunum (enda er amman fullkomin!). Vissulega leysir stúlkan ekki öll vandamál sín í bókinni, en hún fer að takast á við þau. Hún áttar sig á eigin tilfinningum og fer að gera kröfur til elskhuga síns, þótt hún sé hrædd um að missa hann. Einnig hér er hún ótrúlega þroskuð í tali (bls. 108):

- Skilurðu ekki að þetta frelsi er samt fyrst og fremst fyrir stráka, æpti Maja. Ég get vel ímyndað mér, að þú hafir djöfull fínt frelsi, þú sem veður í stelpum og veitir þeim óviðjafnanlegar fullnægingar eins og einhvers konar graðfoli með... töfratyppi, galdurinn felst í því að sýna eins litlar tilfinningar og hægt er.

Það er hætt við að aðalpersónan verði nokkuð óljós, þegar hún rúmar svo miklar andstæður, er í senn að lifa aðstæður sínar og tala um þær úr mikilli fjarlægð og af sálfræðiþekkingu (síðasta setningin).
En þetta er vegna pess að bókin mótast öll af málflutningssjónarmiðum. Hún á að gefa alhliða yfirlit um vandamál sem steðja að slíkri stúlku, og höfundur leggur sig fram um að sjá þau frá sjónarhóli unglings. Þá er t.d. haldinn umræðufundur um jafnréttismál heima hjá henni og málin rædd frá öllum hliðum, líka sú kúgun sem karlmennskuhugsjónin er strákum, og íhaldssjónarmið verkalýðsstéttar fá einnig að koma fram (bls. 84):

Ég vil að konan mín geti verið heima hjá börnunum en þurfi ekki að slíta sér út í einhverri skítavinnu!

Mér sýnist ótvírætt að hér sé bók af því tagi, sem nefnd var í upphafi greinarinnar: bók sem tekur skipulega á sérstökum vandamálum unglinga frá þeirra sjónarhóli og stefnir þannig að því að þeir öðlist sjálfstæði, en ekki að því að peir aðlagist tilteknum óskum fullorðinna. Hér er t.d. tekist á við vanda kynlífsins, þar sem Töff týpa á föstu segir bara: Hókus, pókus — ekkert mál.

Hlutverk listarinnar
Löngum hefur verið sagt að málefnaleg umfjöllun um efni væri andstæða skáldlegrar umfjöllunar. Gegn þessu viðhorfi hefur bandaríski bókmenntafræðingurinn Wayne C. Booth snúist í skemmtilegri bók. The Rethoric of Fiction (Chicago 1961). Hann sýnir þar að beinn mátflutningur sögumanns, umfjöllun hans um persónur og önnur ritgerðarkennd innskot hans í söguna, tíðkast i mörgum afbragðsskáldverkum. Og þvílíkt efni þarf alls ekki að spilla skáldskapnum. Þvert á móti spinnst það oft vel saman við skáldskapinn og magnar hann — í verkum svo sem Stríð og friður, Tom Jones og mörgum fleirum.
Í bókinni Vorið þegar mest gekk á er um annað að ræða. ,,Vandamálaumfjöllun” ræður alveg ferðinni, svo að mynd aðalpersónunnar skekkist jafnvel og deyfist. Mér sýnist bókin gera vandamálum unglingsstúlku rækileg skil á þann hátt sem ætti að höfða almennt til unglinga. Má þá ekki vel við una? Er raunhæft að búast við að hún sé þar að auki mikið skáldverk? Þurfa unglingar nokkuð annað — hafa þeir að auki þörf fyrir listaverk?
Já, svo sannarlega.
Það veit hver sem reynt hefur að listaverk veita lesendum sínum frelsi sem máiefnaleg umfjöllun getur aldrei veitt. Hversu lýðræðisleg og róttæk sem slík umtjöllun er, þótt hún taki fyrir raunveruleg vandamál lesenda og hjálpi þeim við að skilja þau, fjallar hún um þau fyrst og fremst á vitsmunalegan hátt — höfðar til eins hæfileika lesenda af mörgum. En skáldverk sendir út á mörgum bylgjulengdum senn og því vekur það lesendum tilfinningu fyrir samræmdri heild — sem er raunar reynsla þeirra fremur en einkenni á skáldverkinu. Ljóð raðar niður hugmyndum, segir sögu eða lýsir aðstæðum á tilteknu augnabliki. En jafntramt dregur það upp myndir, höfðar til skynjunar lesenda á hljóm og hrynjandi og loks heildarbyggingu. Skáldsaga fléttar saman staðarlýsingar, persónusköpun, atburðarás og fleira, og höfðar jafnframt til skynjunar lesenda á heildarbyggingu. Allur persónuleiki skáldsins er virkur við sköpun skáldverks, og þegar vel tekst til höfða þau líka til alls persónuleika lesenda, meðvitaðs og dulvitaðs, skynsemi þeirra og tilfinninga.
Það er mikil glópska að krefjast þess að ,,bókmenntir verði með í baráttunni fyrir betri heimi. Þær eru með henni í sjálfum sér — með því einu að vera raunverulegur skáldskapur. En til að þær verði það, verður skáldskapurinn að vera æðsta og raunar eina markmið skáldsins, ekki fræðsla eða boðskapur. Því er rangt að láta innihald — siðaboðskap, trúrækni, þjóðemisstefnu eða annað — ganga fyrir bókmenntagildi. List er hin æðstu lífsgæði. Reyni einhver að svipta fólk henni, er hann óvinur fólksins, hvaða hugsjónir sem hann kann að bera fyrir sig.

Bjartsýni
En hvar ættu þá unglingar að kynnast skáldskap? Augljóslega ekki í blöðunum sem neinu nemur og ekki í sjónvarpi. Í útvarpi er skáldskapur oft fluttur og er það lofsvert. Það nægir þó ekki því skáldskapur þarf oft yfirlegu og endurlestrar við. Og mjög er misjafnt hvað unglingum býðst á heimilum sínum. Hér held ég því að skólakerfið þurfi að koma til.
En hvernig sinna þá skólarnir þessu hlutverki sínu? Bara vel, sýnist mér. Samræmt próf í níunda bekk (fyrir 15 ára) útheimtir Gísla sögu Súrssonar og Íslandsklukkuna og einng eiga nemendur að greina ólesið ljóð. Að öðru leyti munu kennarar vera sjálfráðir um lesefni og mér er sagt að t.d. í Réttarholtsskóla séu lesin nútímaljóð eftir m.a. Jón Óskar, Ólaf Hauk Símonarson. Einar Má Guðmundsson. Gyrði Elíasson og þýðingar Hannesar Sigfússonar á norrænurn ljóðum. Í þessum þrernur bekkjum (13-15 ára) eru auk þess lesnar skáldsögur Péturs Gunnarssonar, Punktur. . og Ég um mig... auk hefta sem Námsgagnastofnun hefur gefið út en þar er skáldskapur flokkaður saman eftir efni: Ævi, Auður og örbirgð, Grannar, Saman. Úr þessu velja kennarar með fjölbreytni að leiðarljósi og prófa sig áfram með hvað höfði til krakkanna. Margt er gott í þessum heftum, og þá einnig að þau ná til nýjustu verka, þótt auðvitað megi verk heftanna þykja mismunandi og hæpið að leggja megináherslu á efnivið þeirra. Hér hafa orðið verulega miklar framfarir á þremur næstliðnum árum: ástandið er allt annað en lesendur þessa tímarits hafa vanist á dögum Lestrarbókarinnar. Bókmenntaval er svo svipað i fjölbrautaskólum og menntaskólum þar sem ég þekki til.
Það er því ekki áslæða til annars en bjartsýni, enda þótt ruslið sé söluhæst. Það ber hins vegar ekki vitni um bókmenntasmekk nokkurs manns, heldur hitt að fullorðnir vanda ekki val á því sem þeir þekkja ekki til - kaupa bara það
sem selst best, ,,það hlýtur þá að vera vinsælt". Bækur eins og Vorið þegar mest gekk á kunna að vera ”þungar i sölu” svo vitnað sé í útgefanda, en þær hafa samt virðingarverð áhrif. Líklega verða þær lesendum þeim mun minnistæðari sem þær stinga meira í stúf við venjulega framleiðslu unglingabóka að væntingum fullorðinna. Sama gildir í enn ríkara mæli um reynslu unglinga af mikilfenglegum skáldverkum.

Tilvitnuð rit:

Símon Jóh. Ágústsson: Börn og bækur. Rvík 1972-6.
Andrés Indriðason: Töff týpa á föstu. Rvík 1984.
Eðvarð Ingólfsson: Sextán ára í sambúð. Rvík 1985.
Gunnel Beckman: Vorið þegar mest gekk á. Rvík 1986.

Engin ummæli: